1Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.2Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.3Guð minn! hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.4Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.5Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,6til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.7En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.8Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.9Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!10Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.11Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.12Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.13Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.14Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.15„Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;“16gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.17Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.18Ég get talið öll mín bein þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,19þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.20En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,21frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.22Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!23Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!24Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!25Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.26Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.27Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.28Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.29Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.30Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,31niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,32og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

22.2 Guð minn Matt 27.46 og hlst. – yfirgefið Slm 38.22; 71.18; Jes 54.7
22.4 Hinn heilagi Jes 6.3+
22.6 Hrópa til Drottins Slm 6.5+ ; Dóm 3.9,15 – Brást ekki Slm 31.2+
22.7 Maðkur Jes 41.14; Job 25.6 – ekki maður Jes 53.3
22.8 Gys Matt 27.29 og hlst. – hrista höfuðið Matt 27.39 og hlst.; Slm 64.9; 109.25; Hlj 2.15
22.9 Guð frelsaði hann Matt 27.43 og hlst.; sbr SSal 2.18; Slm 3.3+ – fól Drottni Slm 37.5; Okv 16.3
22.10 Af móðurlífi Slm 71.6; sbr 139.13
22.11 Til þín var mér varpað sbr 1Mós 30.3; 48.12; Job 3.12 – þú ert Guð minn Slm 31.15; 63.2; 118.28; 140.7; 143.10; sbr 18.3
22.12 Ver eigi fjarri mér Slm 35.22; 38.22; 71.12 – hjálpa Slm 40.14
22.13 Basan Am 4.1+
22.14 Ljón Slm 17.12; 57.2
22.15-16 Dauðastríðið Slm 102.4-6
22.17 Hundar Slm 59.7,15
22.19 Kasta hlut um Matt 27.35 og hlst.
22.20 Skunda til hjálpar Slm 38.23; 40.14; 70.2; 71.12; 109.26
22.21 Frelsa líf mitt Slm 35.17
22.23 Í söfnuðinum Heb 2.12; sbr Slm 35.18; 40.10
22.24 Óttast Drottinn Slm 15.4+
22.26 Í stórum söfnuði Slm 35.18+
22.27 Leita Drottins Slm 9.11+ – hjörtu yðar lifi Slm 69.33
22.28 Endimörk jarðar Slm 72.8-11; Jer 16.19-20
22.29 Ríkið er Drottins Slm 103.19; Ób 21; Opb 11.15; sbr Slm 93.1
22.30 Hníga í duftið Slm 28.1; 30.4; 88.5; 143.7; 4Mós 16.33; Esk 26.20-21
22.32 Sagt frá Drottni Slm 48.14; 71.18; 78.6; 102.19