1Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig:2Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.3Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun.4Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.5En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.6Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp.7Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.8Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.9Reyndu að koma sem fyrst til mín,10því að Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim. Hann er farinn til Þessaloníku. Kreskes er farinn til Galatíu og Títus til Dalmatíu.11Lúkas er einn hjá mér. Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu.12Týkíkus hef ég sent til Efesus.13Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.14Alexander koparsmiður gjörði mér margt illt. Drottinn mun gjalda honum eftir verkum hans.15Gæt þín líka fyrir honum, því að mjög stóð hann í gegn orðum vorum.16Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar, heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað!17En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins.18Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og mig hólpinn leiða inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.19Heilsa þú Prisku og Akvílasi og heimili Ónesífórusar.20Erastus varð eftir í Korintu, en Trófímus skildi ég eftir sjúkan í Míletus.21Flýt þér að koma fyrir vetur. Evbúlus sendir þér kveðju og Púdes og Línus og Kládía og allir bræðurnir.22Drottinn sé með þínum anda. Náð sé með yður.

4.1 Dæma lifendur og dauða Post 10.42; Róm 14.9-10; 1Pét 4.5 – endurkoma Jesú Krists 1Tím 6.14+
4.2 Í tíma og ótíma Post 20.20-21
4.3 Þann tíma mun að bera … 1Tím 4.1 – hin heilnæma kenning 1Tím 1.10+
4.4 Kynjasögur 1Tím 4.7+
4.6 Mér verður fórnfært Fil 2.17; sbr 2Mós 29.40; 4Mós 28.7 – taka sig upp Fil 1.23
4.7 Góða baráttan 1Tím 1.18+
4.8 Sveigur 1Kor 9.25+ ; 2Tím 2.5 – endurkoma Drottins 1Tím 6.14+
4.10 Demas Kól 4.14+ – Þessaloníku Post 17.1; 20.4; 27.2; Fil 4.16 – Galatía Post 16.6; 18.23; 1Kor 16.1; Gal 1.2; 1Pét 1.1 – Títus 2Kor 2.13+
4.11 Lúkas Kól 4.14+ – Markús Post 12.12+ ; Kól 4.10; Fílm 24; 1Pét 5.13
4.12 Týkíkus Post 20.4 – Efesus Post 19.1+
4.13 Tróas Post 16.8+
4.14 Alexander 1Tím 1.20 – Drottinn mun gjalda 2Sam 3.39; Slm 28.4; 62.13; Okv 24.12; Róm 2.6
4.16 Yfirgáfu Pál 2Tím 1.15
4.17 Drottinn stóð með mér Post 27.23 – Páll prédikar öllum þjóðum fagnaðarerindið Post 9.15; 23.11; Gal 2.7 – úr gini ljónsins Slm 22.22; Dan 6.21; 1Makk 2.60
4.19 Priska og Akvílas Post 18.2+ – heimili Ónesífórusar 2Tím 1.16-17
4.20 Erastus Róm 16.23+ – Korinta Post 18.1; 19.1; 1Kor 1.2; 2Kor 1.1 – Trófímus Post 20.4 – Míleteus Post 20.15-17