1Kynkvísl Manasse fékk sinn hlut, því að hann var frumgetningur Jósefs. Makír, frumgetningur Manasse, faðir Gíleaðs, fékk Gíleað og Basan, því að hann var bardagamaður.2Og hinir synir Manasse fengu sinn hluta eftir ættum þeirra: synir Abíesers, synir Heleks, synir Asríels, synir Sekems, synir Hefers og synir Semída. Þessir voru synir Manasse Jósefssonar í karllegginn, eftir ættum þeirra.3En Selofhað Hefersson, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, átti enga sonu, heldur dætur einar, og hétu þær Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.4Þær gengu fyrir Eleasar prest, Jósúa Núnsson og höfuðsmennina og sögðu: Drottinn bauð Móse að gefa oss óðal meðal bræðra vorra. Gaf hann þeim þá eftir boði Drottins óðal meðal bræðra föður þeirra.5Komu þá tíu hlutir á Manasse, auk Gíleaðlands og Basans, sem liggja hinumegin Jórdanar,6með því að dætur Manasse fengu óðal meðal sona hans, en Gíleaðland fengu hinir synir Manasse.7„Landamerki Manasse lágu frá Asser til Mikmetat, sem liggur fyrir austan Síkem; þaðan lágu landamærin til hægri, til þeirra sem bjuggu í En-Tappúa.“8Tappúasveit fékk Manasse, en Tappúaborg, sem lá við takmörk Manasse, fengu Efraíms synir.9Þá lágu landamerkin niður að Kana-læk, fyrir sunnan lækinn. Þessar borgir heyra Efraím mitt á meðal borga Manasse. Þaðan lágu landamerki Manasse norðan með læknum og alla leið til sjávar.10Það sem var að sunnanverðu, átti Efraím, en það sem var að norðanverðu, átti Manasse, og hafið réð takmörkum hans. Að norðanverðu lágu lönd þeirra að Asser og að austanverðu að Íssakar.11En í Íssakar og Asser fékk Manasse: Bet Sean og smáborgirnar, er að liggja, Jibleam og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Dór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Endór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Taanak og smáborgirnar, er að liggja, og íbúana í Megiddó og smáborgirnar, er að liggja, þ. e. hæðirnar þrjár.12En ekki gátu Manasse synir stökkt íbúum þessara borga burt, og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu.13En þegar Ísraelsmenn efldust, gjörðu þeir Kanaaníta sér vinnuskylda, en ráku þá ekki algjörlega burt.14Þá báru Jósefs synir sig upp við Jósúa og sögðu: Hví hefir þú ekki gefið mér nema eitt hlutskipti og einn hlut að óðali, og er ég þó fjölmennur, þar sem Drottinn hefir blessað mig allt til þessa?15Jósúa sagði við þá: Ef þú ert orðinn svo fjölmennur, þá far þú upp í skóginn og ryð þér þar til bólstaða í landi Peresíta og Refaíta, ef of þröngt er orðið um þig á Efraímfjöllum.16Þá sögðu Jósefs synir: Fjalllendið nægir oss eigi, því að allir Kanaanítar, þeir er á sléttlendinu búa, hafa járnvagna, bæði þeir sem búa í Bet Sean og þorpunum, er að liggja, og þeir sem búa á Jesreelsléttunni.17Þá sagði Jósúa við hús Jósefs, við Efraím og Manasse: Þú ert orðinn fjölmennur, og styrkur þinn er mikill. Þú skalt fá meira en einn erfðahluta,18því að fjalllendið skal vera þitt. Ef það er skógi vaxið, þá verður þú að ryðja hann, þá munt þú og eignast fjalladrögin. Því að þú verður að reka Kanaanítana burt, fyrst þeir hafa járnvagna og fyrst þeir eru sterkir.

17.1 Makír 4Mós 26.29; 32.39-40 – Manasse 1Mós 41.51; sbr 49.22-26; 5Mós 33.13-17; Jós 13.29-31 – Gíleað og Basan Jós 13.11
17.2 Aðrir niðjar Manasse 4Mós 26.29-32; 5Mós 3.13,15
17.13 Gátu ekki hrakið burtu Jós 15.63; 16.10; Dóm 1.27-28 – kvaðavinna 5Mós 20.11+
17.15 Fjölmenn 1Mós 48.19-20; 4Mós 26.34,37 – Peresítar og Refaítar Jós 3.10; 12.4; 13.12; 1Mós 13.7; 15.20; sbr 5Mós 2.11+ – fjallendi Efraím Jós 19.50; 20.7; 21.21; 24.30; Dóm 3.27+
17.16 Járnvagnar Dóm 1.19+ – Jesreel Jós 19.18; Dóm 6.33; 1Kon 18.45; 21.1; 2Kon 10.1-11; Hós 1.5
17.18 Kanverjar sigraðir þrátt fyrir vagnana Jós 11.6; 5Mós 20.1