1Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.2Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.3Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.4Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.5Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.6Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.7Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.8Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.9Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.10Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.11Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.12Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.13Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,14þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,15forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.16Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.17Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.18Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.19Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.20Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.21Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.22Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.23Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

34.1 Davíð hjá konungi Filista 1Sam 21.10-22.1
34.2 Alla tíma Slm 16.7; 145.1
34.7 Hrópa til Drottins Slm 3.5+ – Drottinn heyrði Slm 4.4+
34.8 Engill Drottins Slm 35.5-6; 91.11; 2Mós 14.19; 23.20 – er óttast hann Slm 15.4+
34.9 Drottinn er góður 1Pét 2.3 – sæll Slm 1.1+ – leita hælis Slm 7.2+
34.10 Líða engan Skort Slm 23.1; 111.5
34.12 Komið börn Okv 1.8
34.13-17 Óska lífs 1Pét 3.10-12
34.15 Forðast illt Slm 37.27
34.16 Augu Drottins Slm 33.18
34.18 Hrópa til Drottins Slm 3.5+
34.19 Sundurmarið hjarta Slm 51.19
34.21 Ekki eitt bein brotið Jóh 19.36
34.23 Drottinn frelsar Slm 25.22