1Orð Drottins kom til Jónasar Amittaísonar, svo hljóðandi:2Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og prédika móti henni, því að vonska þeirra er upp stigin fyrir auglit mitt.3En Jónas lagði af stað í því skyni að flýja til Tarsis, burt frá augliti Drottins, og fór hann niður til Jaffa. Þar hitti hann skip, er ætlaði til Tarsis. Greiddi hann fargjald og steig á skip í því skyni að fara með þeim til Tarsis, burt frá augliti Drottins.4Þá varpaði Drottinn miklum stormi á sjóinn, og gjörði þá svo mikið ofviðri á hafinu, að við sjálft lá, að skipið mundi brotna.5Skipverjar urðu hræddir og hét hver á sinn guð. Og þeir köstuðu reiða skipsins í sjóinn til þess að létta á skipinu. En Jónas hafði gengið ofan í neðsta rúm í skipinu, lá þar og svaf vært.6Þá gekk stýrimaður til hans og sagði við hann: Hvað kemur til, að þú sefur? Statt upp og ákalla guð þinn. Vera má að sá guð minnist vor, svo að vér förumst eigi.7Nú sögðu skipverjar hver við annan: Komið, vér skulum kasta hlutum, svo að vér fáum að vita, hverjum það er að kenna, að þessi ógæfa er yfir oss komin. Þeir köstuðu síðan hlutum, og kom upp hlutur Jónasar.8Þá sögðu þeir við hann: Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú? Hvert er föðurland þitt og hverrar þjóðar ertu?9Hann sagði við þá: Ég er Hebrei og dýrka Drottin, Guð himinsins, þann er gjört hefir hafið og þurrlendið.10Þá urðu mennirnir mjög óttaslegnir og sögðu við hann: Hvað hefir þú gjört! Mennirnir vissu sem sé, að hann var að flýja burt frá augliti Drottins, því að hann hafði sagt þeim frá því.11Því næst sögðu þeir við hann: Hvað eigum vér að gjöra við þig, til þess að hafið kyrrist fyrir oss? því að sjórinn æstist æ meir og meir.12Þá sagði hann við þá: Takið mig og kastið mér í sjóinn, mun þá hafið kyrrt verða fyrir yður, því að ég veit, að fyrir mína skuld er þessi mikli stormur yfir yður kominn.13Þá lögðust skipverjar á árar og reyndu að komast aftur til lands, en gátu það ekki, því að sjórinn æstist æ meir og meir.14Þá kölluðu þeir til Drottins og sögðu: Æ, Drottinn! Lát oss eigi farast, þótt vér glötum lífi þessa manns, og lát oss ekki gjalda þess, svo sem vér hefðum fyrirkomið saklausum manni, því að þú, Drottinn, hefir gjört það, sem þér þóknaðist.15Þeir tóku nú Jónas og köstuðu honum í sjóinn. Varð hafið þá kyrrt og sjávarólguna lægði.16En skipverjar óttuðust Drottin harla mjög, færðu Drottni sláturfórn og gjörðu heit.

1.1 Jónas Ammittaíson 2Kon 14.25
1.2 Níníve 1Mós 10.11; 2Kon 19.36; Nah 1.1; 2.9; 3.7; Sef 2.13; Matt 12.41; Lúk 11.30 – illska hennar 1Mós 18.21
1.3 Tarsis 1Mós 10.4; Jes 23.1; 66.19; Slm 72.10
1.4 Stormur Slm 107.23-30
1.5 Létta á skipinu Post 27.18
1.6 Þú sefur Matt 8.24-25 og hlst.; Mrk 14.37
1.7 Varpa hlutkesti Jós 7.14; 1Sam 14.41-42
1.9 Sjó og land 1Mós 1.9-10
1.14 Kalla til Drottins Slm 17.6; 50.15; 86.7; 91.15; 118.5; 138.3; Hlj 3.57 – drepa saklausan 5Mós 21.8; Jer 26.15