1Þegar allir konungar þeir, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, í fjalllendinu, á láglendinu og á öllu strandlendinu við hafið mikla gegnt Líbanon Hetítar, Amorítar, Kanaanítar, Peresítar, Hevítar og Jebúsítar spurðu þetta,2þá söfnuðust þeir saman, allir sem einn maður, til þess að berjast við Jósúa og Ísrael.3En íbúar í Gíbeon fréttu, hvernig Jósúa hafði farið með Jeríkó og Aí.4Beittu þeir nú líka slægð. Fóru þeir og fengu sér veganesti, tóku gamla sekki á asna sína, og gamla, rifna og samanbundna vínbelgi,5og gamla, bætta skó á fætur sér og fóru í gömul föt, og allt brauð, sem þeir höfðu í nesti, var hart og komið í mola.6Fóru þeir á fund Jósúa í herbúðirnar í Gilgal og sögðu við hann og Ísraelsmenn: Vér erum komnir frá fjarlægu landi, gjörið nú sáttmála við oss!7Þá svöruðu Ísraelsmenn Hevítunum: Vera má, að þér búið meðal vor. Hvernig megum vér þá gjöra sáttmála við yður?8Þá sögðu þeir við Jósúa: Vér erum þjónar þínir. Jósúa sagði við þá: Hverjir eruð þér og hvaðan komið þér?9Þeir sögðu við hann: Vér þjónar þínir erum komnir frá mjög fjarlægu landi fyrir sakir nafns Drottins Guðs þíns, því að vér höfum heyrt hans getið, svo og alls þess, er hann gjörði Egyptum,10sem og þess, hvernig hann fór með báða Amorítakonungana, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, þá Síhon konung í Hesbon og Óg konung í Basan, sem bjó í Astarót.11Fyrir því sögðu öldungar vorir og allir íbúar lands vors við oss: Takið yður veganesti og farið til fundar við þá og segið við þá: Vér erum þjónar yðar, gjörið nú sáttmála við oss.12Sjáið hér brauð vort. Vér tókum það nýbakað oss til nestis að heiman, þá er vér lögðum af stað á yðar fund, en sjá, nú er það orðið hart og komið í mola.13Og vínbelgir þessir voru nýir, þegar vér létum á þá, en sjá, nú eru þeir farnir að rifna, og þessi klæði vor og skór vorir eru slitnir orðnir á þessari afar löngu leið.14Þá tóku Ísraelsmenn nokkuð af nesti þeirra, en atkvæða Drottins leituðu þeir ekki.15Hét Jósúa þeim þá friði og gjörði þann sáttmála við þá, að hann skyldi láta þá lífi halda, og höfuðsmenn safnaðarins bundu það svardögum við þá.16Þremur dögum eftir að þeir höfðu gjört þennan sáttmála við þá, spurðist það, að þeir væru þar úr grenndinni og að þeir byggju mitt á meðal þeirra.17Ísraelsmenn lögðu þá upp og komu á þriðja degi til borga þeirra, en borgir þeirra voru Gíbeon, Kefíra, Beerót og Kirjat Jearím.18Og Ísraelsmenn drápu þá eigi, því að höfuðsmenn safnaðarins höfðu svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Möglaði þá allur söfnuðurinn gegn höfuðsmönnunum.19Þá sögðu allir höfuðsmennirnir við gjörvallan söfnuðinn: Vér höfum svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Fyrir því megum vér nú eigi snerta þá.20Þetta munum vér við þá gjöra og láta þá lífi halda, svo að eigi komi yfir oss reiði vegna eiðsins, er vér sórum þeim.21Og höfuðsmennirnir sögðu: Þeir skulu lífi halda! Og þeir urðu viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir allan söfnuðinn, eins og höfuðsmennirnir höfðu sagt þeim.22Þá lét Jósúa kalla þá og mælti við þá á þessa leið: Hví svikuð þér oss, er þér sögðuð: Vér eigum heima mjög langt í burtu frá yður, þar sem þér þó búið mitt á meðal vor?23Fyrir því skuluð þér nú vera bölvaðir og jafnan vera þrælar upp frá þessu, bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir hús Guðs míns.24Þá svöruðu þeir Jósúa og sögðu: Oss þjónum þínum var frá því sagt, að Drottinn, Guð þinn, hefði heitið Móse, þjóni sínum, að gefa yður allt landið, en eyða öllum landsbúum fyrir yður. Fyrir því urðum vér hræddir um líf vort fyrir yður og tókum því þetta til bragðs.25En nú erum vér á þínu valdi. Far þú með oss svo sem þér þykir gott og rétt vera.26Og Jósúa fór svo með þá og frelsaði þá úr höndum Ísraelsmanna, svo að þeir dræpu þá ekki.27Og hann gjörði þá á þeim degi að viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari Drottins á þeim stað, er hann mundi til velja, og er svo enn í dag.

9.9 Heyrt orðstír Drottins Jós 2.10
9.10 Konungar Amoríta sigraðir 4Mós 21.24-33; 5Mós 1.4+
9.14 Leita úrskurðar Drottins 4Mós 27.21; 1Sam 23.2,4,9-12; 1Kon 22.5-8
9.20 Sóru Gíbeonítum eið 2Sam 21.1-9
9.21 Ánauðugir 5Mós 20.11+
9.24 Ryðja íbúunum úr vegi 5Mós 2.34
9.27 Drottinn velur stað 5Mós 12.5+