1Davíð kom til Nób, til Ahímeleks prests, en Ahímelek gekk skelkaður í móti Davíð og mælti til hans: Hví ert þú einsamall og enginn maður með þér?2Davíð svaraði Ahímelek presti: Konungur fól mér erindi nokkurt og sagði við mig: Enginn maður má vita neitt um erindi það, er ég sendi þig í og ég hefi falið þér. Fyrir því hefi ég stefnt sveinunum á vissan stað.3Og ef þú hefir nú fimm brauð hjá þér, þá gef mér þau, eða hvað sem fyrir hendi er.4Prestur svaraði Davíð og sagði: Ég hefi ekkert óheilagt brauð hjá mér, en heilagt brauð er til, aðeins að sveinarnir hafi haldið sér frá konum.5Davíð svaraði presti og mælti til hans: Já, vissulega. Kvenna hefir oss verið varnað undanfarið. Þegar ég fór að heiman, voru ker sveinanna heilög. Að vísu er þetta ferðalag óheilagt, en nú verður allt helgað!6Þá gaf prestur honum heilagt brauð, því að þar var ekkert brauð, nema skoðunarbrauðin, sem tekin eru burt frá augliti Drottins, en volg brauð lögð í stað þeirra, þá er þau eru tekin.7En þar var þennan dag einn af þjónum Sáls, inni byrgður fyrir augliti Drottins. Hann hét Dóeg og var Edómíti og yfirmaður hirða Sáls.8Davíð sagði við Ahímelek: Hefir þú ekki spjót eða sverð hér hjá þér? Því að ég tók hvorki sverð mitt né vopn mín með mér, svo bar bráðan að um konungs erindi.9Þá sagði prestur: Hér er sverð Golíats Filista, sem þú lagðir að velli í Eikidal, sveipað dúk á bak við hökulinn. Ef þú vilt hafa það, þá tak það, því að hér er ekkert annað en það. Davíð sagði: Það er sverða best, fá mér það.10Síðan tók Davíð sig upp og flýði þennan sama dag fyrir Sál, og kom til Akís konungs í Gat.11Og þjónar Akís sögðu við hann: Er þetta ekki Davíð, konungur landsins? Var það ekki um hann, að sungið var við dansinn: Sál felldi sín þúsund og Davíð sín tíu þúsund?12Davíð festi þessi orð í huga og var mjög hræddur við Akís konung í Gat.13Fyrir því gjörði hann sér upp vitfirringu fyrir augum þeirra og lét sem óður maður innan um þá, sló á vængjahurðir hliðsins sem á bumbu og lét slefuna renna ofan í skeggið.14Þá sagði Akís við þjóna sína: Þér sjáið að maðurinn er vitstola. Hví komið þér með hann til mín?15Hefi ég ekki nóg af vitfirringum, úr því að þér hafið komið með þennan til að ærast frammi fyrir mér? Hvað á hann að gjöra í mitt hús?

21.7 Skoðunarbrauð 2Mós 25.30; Matt 12.3-4 og hlst.
21.8 Dóeg 1Sam 22.9,18,22
21.11 Flýði til Gat 1Kon 2.39-41
21.12 Sál felldi … 1Sam 18.7+
21.14 Vitfirring Slm 34.1