1Ég sá, og sjá: Á festingunni, er var yfir höfði kerúbanna, var því líkast sem safírsteinn væri. Eitthvað, sem tilsýndar var sem hásæti í laginu, sást uppi yfir þeim.2Þá sagði hann við línklædda manninn: Gakk inn á millum hjólanna undir kerúbunum, tak handfylli þína af glóðum milli kerúbanna og dreif þeim út yfir borgina. Og hann gekk þar inn að mér ásjáandi.3En kerúbarnir stóðu hægra megin við musterið, þegar maðurinn gekk inn, og fyllti skýið innra forgarðinn.4En dýrð Drottins hóf sig frá kerúbunum yfir á þröskuld musterisins. Varð musterið þá fullt af skýmekki, en forgarðurinn fylltist ljóma af dýrð Drottins.5Og vængjaþytur kerúbanna heyrðist allt til hins ytra forgarðs, eins og rödd Guðs almáttugs, þá er hann talar.6Nú er hann hafði boðið línklædda manninum og sagt: Tak eld á millum hjólanna, á millum kerúbanna! þá gekk hann til og staðnæmdist hjá einu hjólinu.7Þá rétti einn kerúbinn hönd sína út milli kerúbanna að eldinum, sem var á milli kerúbanna, tók þar af og fékk í hendur línklædda manninum. Hann tók við og gekk burt.8En á kerúbunum sást eitthvað, sem líktist mannshendi, undir vængjum þeirra.9Ég leit til, og voru þá fjögur hjól hjá kerúbunum, sitt hjól hjá hverjum kerúb, og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolítstein.10Og að því er gerð þeirra snertir, þá voru þau öll fjögur samlík, eins og eitt hjólið væri innan í öðru hjóli.11Þegar þau gengu, gengu þau til allra fjögurra hliða. Þau snerust eigi við í göngunni, heldur gengu þau í þá átt, sem höfuðið sneri, þau snerust eigi við í göngunni.12Og allur líkami þeirra og bak þeirra, hendur og vængir voru alsett augum allt umhverfis á þeim fjórum.13En hjólin voru í mín eyru nefnd hvirfilbylur.14Og hver hafði fjögur andlit. Andlit eins var nautsandlit, andlit hins annars mannsandlit, hinn þriðji hafði ljónsandlit og hinn fjórði arnarandlit.15Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð við Kebarfljótið.16Og þegar kerúbarnir gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar kerúbarnir hófu upp vængi sína til þess að lyfta sér frá jörðinni, þá snerust hjólin ekki burt frá þeim.17Þegar þeir stóðu kyrrir, stóðu þau og kyrr, og þegar þeir hófust upp, hófust þau og upp með þeim, því að andi verunnar var í þeim.18Dýrð Drottins fór nú burt af þröskuldi musterisins og nam staðar uppi á kerúbunum.19Þá hófu kerúbarnir upp vængi sína og lyftu sér frá jörðinni að mér ásjáandi, er þeir fóru burt, og hjólin samtímis þeim. Og þeir námu staðar úti fyrir austurhliði musteris Drottins, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim.20Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð undir Ísraels Guði við Kebarfljótið, og ég þekkti, að það voru kerúbar.21Þeir höfðu fjögur andlit og fjóra vængi hver, og undir vængjum sér eitthvað, sem líktist mannshöndum.22„Og hvað andlitsskapnaðinn snerti, þá voru það sömu andlitin, sem ég hafði séð við Kebarfljótið; þeir gengu hver fyrir sig beint af augum fram. “

10.1 Hvelfingin Esk 1.22 – hásæti Esk 1.26
10.2 Glóðum dreift Opb 8.5
10.3 Skýið 2Mós 40.34; 1Kon 8.10; 2Kro 5.13
10.5 Vængjaþytur Esk 1.24; 3.12-13
10.9 Hjól Esk 1.15-21
10.15 Kerúbarnir Esk 1.5-14
10.18 Yfir kerúbunum 1Sam 4.4; 2Sam 6.2; Slm 18.11; 80.2; 99.1