1Ísrael var gróskumikill vínviður, sem bar ávöxt. Því meiri sem ávextir hans urðu, því fleiri ölturu reisti hann. Að sama skapi sem velmegun landsins jókst, prýddu þeir merkissteinana.2Hjarta þeirra var óheilt, fyrir því skulu þeir nú gjöld taka. Hann mun sjálfur rífa niður ölturu þeirra, brjóta sundur merkissteina þeirra.3Já, þá munu þeir segja: Vér höfum engan konung, því að vér höfum ekki óttast Drottin. Og konungurinn, hvað getur hann gjört fyrir oss?4Þeir tala hégómaorð, sverja meinsæri, gjöra sáttmála, til þess að rétturinn vaxi eins og eiturjurt upp úr plógförum á akri.5Samaríubúar munu verða skelfingu lostnir út af kálfinum í Betaven, já, lýðurinn mun dapur verða út af honum, enn fremur hofgoðarnir, sem hlökkuðu yfir honum, því að dýrð hans er horfin út í buskann.6Jafnvel sjálfur hann mun fluttur verða til Assýríu sem gjöf handa stórkonunginum. Efraím mun hljóta skömm af og Ísrael fyrirverða sig fyrir ráðagjörð sína.7Samaría skal í eyði lögð verða, konungur hennar skal verða sem tréflís á vatni.8Óheillahæðirnar skulu eyddar verða, þar sem Ísrael syndgaði, þyrnar og þistlar skulu upp vaxa á ölturum þeirra. Og þá munu þeir segja við fjöllin: Hyljið oss! og við hálsana: Hrynjið yfir oss!9Síðan á Gíbeu-dögum hefir þú syndgað, Ísrael! Þarna standa þeir enn! Hvort mun stríðið gegn glæpamönnunum ná þeim í Gíbeu?10Nú vil ég refsa þeim eftir vild minni. Þjóðir skulu saman safnast móti þeim til þess að refsa þeim fyrir báðar misgjörðir þeirra.11Efraím er eins og vanin kvíga, sem ljúft er að þreskja. Að vísu hefi ég enn hlíft hinum fagra hálsi hennar, en nú vil ég beita Efraím fyrir, Júda skal plægja, Jakob herfa.12Sáið niður velgjörðum, þá munuð þér uppskera góðleik. Takið yður nýtt land til yrkingar, þar eð tími er kominn til að leita Drottins, til þess að hann komi og láti réttlætið rigna yður í skaut.13Þér hafið plægt guðleysi, uppskorið ranglæti, etið ávöxtu lyginnar. Þú reiddir þig á vagna þína og á fjölda kappa þinna,14því skal og hergnýr rísa gegn mönnum þínum og virki þín skulu öll eydd verða, eins og þegar Salman eyddi Betarbel á ófriðartíma, þá er mæðurnar voru rotaðar ásamt börnunum.15Eins mun hann með yður fara, Ísraelsmenn, sökum yðar miklu vonsku. Í dögun mun Ísraelskonungur afmáður verða.

10.1 Vínviður Jes 5.1-7+ – ölturum fjölgar Hós 8.11; 12.12
10.4 Rétturinn eins og eitruð jurt Am 5.7; 6.12
10.5 Betaven Hós 4.15+ – kálfur Hós 8.5+
10.6 Til Assýríu Hós 9.3; 11.5 – stórkonungurinn Hós 5.13
10.8 Fórnarhæðir illskunnar Hós 4.13 – eyddar 2Kon 23.15-16 – þyrnar og þistlar 1Mós 3.18; Jes 5.6; 7.23,25; 32.13 – hyljið okkur Lúk 23.30; Opb 6.16; sbr Jes 2.10,19,21
10.9 Frá dögum Gíbeu Hós 9.9; sbr Dóm 19-21
10.10 Báðar syndir Jer 2.13
10.12 Brjótið land Jer 4.3 – leita Drottins Hós 5.15; 5Mós 4.29; Slm 14.2 o.áfr.; Jes 55.6; 65.1; Jer 29.13; Am 5.4; Sak 8.22; Post 17.27; sbr 1Kon 22.5; 2Kon 22.13; Jer 37.7 o.áfr. – réttlætið Jes 42.1; Slm 85.11,14
10.13 Uppskera glæpi sbr Hós 8.7+ – eigin leiðir Jes 31.1; Mík 1.13
10.14 Móðir ásamt börnum Hós 14.1; 2Kon 8.12; Jes 13.18; Nah 3.10; Slm 137.9