1Mirjam og Aron mæltu í gegn Móse vegna blálensku konunnar, er hann hafði gengið að eiga, því að hann hafði gengið að eiga blálenska konu.2Og þau sögðu: Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka? Og Drottinn heyrði það.3En maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.4Þá talaði Drottinn allt í einu til Móse, Arons og Mirjam: Farið þið þrjú til samfundatjaldsins! Og þau gengu þangað þrjú.5Þá sté Drottinn niður í skýstólpanum og nam staðar í tjalddyrunum og kallaði á Aron og Mirjam, og þau gengu bæði fram.6Og hann sagði: Heyrið orð mín! Þegar spámaður er meðal yðar, þá birtist ég honum í sýn, eða tala við hann í draumi.7Ekki er því þannig farið um þjón minn Móse. Honum er trúað fyrir öllu húsi mínu.8Ég tala við hann munni til munns, berlega og eigi í ráðgátum, og hann sér mynd Drottins. Og hví skirrðust þið þá eigi við að mæla í gegn þjóni mínum, í gegn Móse?9Reiði Drottins upptendraðist gegn þeim, og hann fór burt.10Og skýið vék burt frá tjaldinu, og sjá, Mirjam var orðin líkþrá, hvít sem snjór. Aron sneri sér að Mirjam, og sjá, hún var orðin líkþrá.11Þá sagði Aron við Móse: Æ, herra minn! Lát okkur eigi gjalda þess, að við breyttum heimskulega og syndguðum.12Æ, lát hana eigi vera sem andvana burð, sem helmingurinn af holdinu er rotnaður á, þá er hann kemur af móðurlífi.13Móse hrópaði til Drottins: Æ, Guð! Gjör hana aftur heila!14Þá sagði Drottinn við Móse: Ef faðir hennar hefði hrækt í andlit henni, mundi hún þá eigi hafa orðið að bera kinnroða í sjö daga? Skal hún í sjö daga vera inni byrgð utan herbúða, en eftir það má taka hana inn aftur.15Og Mirjam var byrgð inni sjö daga fyrir utan herbúðirnar, og lýðurinn lagði ekki upp fyrr en Mirjam var aftur inn tekin.16Eftir þetta lagði lýðurinn upp frá Haserót og setti herbúðir sínar í Paran-eyðimörk.

12.7 Trúað fyrir Heb 3.2
12.8 Mynd Drottins 2Mós 33.20-23
12.14 Utan herbúða 4Mós 5.2-3; 3Mós 13.46