1Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors.2Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.3Og aftur var sagt: Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda.4Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: Amen, hallelúja!5Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir.6Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.7Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.8Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra.9Og hann segir við mig: Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins. Og hann segir við mig: Þetta eru hin sönnu orð Guðs.10Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.11Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.12Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur.13Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs.14Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni.15Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.16Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: Konungur konunga og Drottinn drottna.17Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs18til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra.19Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann, sem á hestinum sat, og við herlið hans.20Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknin gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess. Báðum þeim var kastað lifandi í eldsdíkið, sem logar af brennisteini.21Og hinir voru drepnir með sverði þess, er á hestinum sat, sverðinu, sem út gekk af munni hans, og allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.

19.2 Guð hefnir Opb 6.10+ – sannir dómar Opb 16.7+
19.3 Reykur Opb 14.11
19.4 24 öldungar Opb 4.4+ ; 7.11+ – verurnar fjórar Opb 4.6+
19.5 Lofsyngið Guði vorum Slm 135.1
19.6 Drottinn er konungur orðinn Opb 11.15+ – Guð alvaldur Opb 1.8+
19.7 Guð brúðgumi Ísraels Jes 54.1-5; Hós 2.16-18 – Kristur brúðgumi kirkjunnar Matt 22.2; 25.1-13; Ef 5.23,25,32; Opb 21.2,9
19.9 Boðnir í brúðkaupsveislu Matt 22.1-14; Lúk 14.15-24
19.10 Varastu þetta Post 10.25-26; Opb 22.8-9 – vitnisburður Jesú Opb 1.2+
19.11 Himininn opinn Opb 4.1+ – hvítur hestur Opb 6.2 – Trúr Opb 1.6+ – með réttlæti Slm 96.13; Jes 11.4
19.12 Nafn sem enginn þekkir Opb 2.17+
19.13 Orðið Guðs Jóh 1.1,14
19.14 Klæddar hvítu Opb 3.4+
19.15 Sverð af munni hans Opb 1.16+ – járnsproti Opb 12.5+ – vínþröng Opb 14.19+
19.16 Drottinn drottna Opb 17.14+
19.17-18 Sbr Esk 39.17-20
19.19 Til að heyja stríð Opb 16.14-16; 17.12-14
19.20 Dýrið og tákn þess Opb 13.9-16+ – eldsdíki Jes 30.33; Opb 20.10,15; 14.10+