1Davíð ráðgaðist um við þúsundhöfðingjana og við hundraðshöfðingjana, við alla höfðingjana.2Og Davíð mælti við Ísraelssöfnuð: Ef yður líkar svo, og virðist það vera komið frá Drottni, Guði vorum, þá skulum vér senda til frænda vorra, sem eftir eru orðnir í öllum héruðum Ísraels, svo og til prestanna og levítanna í borgunum með beitilöndunum, er að þeim liggja, og skulu þeir safnast til vor.3Skulum vér sækja örk Guðs vors, því að á dögum Sáls höfum vér ekki spurt um hana.4Svaraði þá allur söfnuður, að svo skyldi gjöra, því að öllum lýðnum leist þetta rétt vera.5Kallaði þá Davíð saman allan Ísrael, frá Síhór í Egyptalandi, allt þar til, er leið liggur til Hamat, til þess að flytja örk Guðs frá Kirjat Jearím.6Og Davíð og allur Ísrael fór til Baala, til Kirjat Jearím, sem er í Júda, til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins, hans, sem situr uppi yfir kerúbunum.7Og þeir óku örk Drottins á nýjum vagni úr húsi Abínadabs, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó vagninum.8Og Davíð og allur Ísrael dansaði fyrir Guði af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, skálabumbum og lúðrum.9En er komið var að þreskivelli Kídons, rétti Ússa út höndina til þess að grípa í örkina, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin.10Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og hann laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar fyrir augliti Guðs.11En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag.12Davíð varð hræddur við Guð á þeim degi og sagði: Hvernig má ég þá flytja örk Guðs til mín?13Og Davíð flutti ekki örkina til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat.14Og örk Guðs var þrjá mánuði í húsi Óbeð Edóms, í húsi hans, og Drottinn blessaði hús Óbeð Edóms og allt það, er hans var.

13.1-14 sbr 2Sam 6.1-11