1Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda það var fyrsta ríkisár Nebúkadresars Babelkonungs,2orðið, sem Jeremía spámaður talað til alls Júdalýðs og til allra Jerúsalembúa:3Frá þrettánda ríkisári Jósía Amónssonar, Júdakonungs, og fram á þennan dag, nú í tuttugu og þrjú ár, hefir orð Drottins komið til mín og ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt.4Og Drottinn hefir sent til yðar alla þjóna sína, spámennina, bæði seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt, né heldur lagt við eyrun til þess að heyra.5Hann sagði: Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi og frá yðar vondu verkum, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.6En eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim, og egnið mig ekki til reiði með handaverkum yðar, svo að ég láti yður ekkert böl að höndum bera.7En þér hlýdduð ekki á mig segir Drottinn heldur egnduð mig til reiði með handaverkum yðar, yður sjálfum til ills.8Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum,9þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins segir Drottinn og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung,10og ég vil láta gjörsamlega hverfa meðal þeirra öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, öll kvarnarhljóð og lampaljós.11Og allt þetta land skal verða að rúst, að auðn, og þessar þjóðir skulu þjóna Babelkonungi í sjötíu ár.12En þegar sjötíu ár eru liðin, mun ég refsa Babelkonungi og þessari þjóð segir Drottinn fyrir misgjörð þeirra, og gjöra land Kaldea að eilífri auðn.13Og ég mun láta fram koma á þessu landi öll þau hótunarorð, er ég hefi talað gegn því, allt það sem ritað er í þessari bók, það sem Jeremía hefir spáð um allar þjóðir.14Því að voldugar þjóðir og miklir konungar munu og gjöra þá að þrælum, og ég mun gjalda þeim eftir athæfi þeirra og eftir handaverkum þeirra.15Svo sagði Drottinn, Ísraels Guð, við mig: Tak við þessum bikar reiðivínsins af hendi mér og lát allar þjóðirnar drekka af honum, þær er ég sendi þig til,16svo að þær drekki og reiki og verði vitskertar af sverðinu, er ég sendi meðal þeirra.17Þá tók ég við bikarnum af hendi Drottins og lét allar þær þjóðir drekka, sem Drottinn hafði sent mig til:18Jerúsalem og borgirnar í Júda, konunga hennar og höfðingja, til að gjöra þá að rúst, að skelfing, að spotti og formæling, eins og nú er fram komið,19Faraó, Egyptalandskonung, og þjóna hans og höfðingja, alla þjóð hans og allan þjóðblending,20alla konunga í Ús-landi, alla konunga í Filistalandi, sem sé Askalon, Gasa, Ekron og leifarnar af Asdód,21Edóm og Móab og Ammóníta,22alla konunga í Týrus og alla konunga í Sídon og konungana á ströndunum, hinum megin hafsins,23Dedan og Tema og Bús og alla sem skera hár sitt við vangann,24alla konunga Arabíu og alla konunga þjóðblendinganna, sem búa í eyðimörkinni,25alla konungana í Simrí og alla konungana í Elam og alla konungana í Medíu,26alla konungana norður frá, hvort sem þeir búa nálægt hver öðrum eða langt hver frá öðrum, í stuttu máli öll konungsríki á jörðinni. En konungurinn í Sesak skal drekka á eftir þeim.27En þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Drekkið, til þess að þér verðið drukknir, spúið og dettið og standið ekki upp aftur, af sverðinu, sem ég sendi meðal yðar.28En færist þeir undan að taka við bikarnum af hendi þinni til þess að drekka, þá seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Drekka skuluð þér!29Því sjá, hjá borginni, sem nefnd er eftir nafni mínu, læt ég ógæfuna fyrst ríða yfir, og þér skylduð sleppa óhegndir? Þér skuluð ekki sleppa óhegndir, því að sverði býð ég út gegn öllum íbúum jarðarinnar segir Drottinn allsherjar.30Þú skalt kunngjöra þeim öll þessi orð og segja við þá: Af hæðum kveða við reiðarþrumur Drottins. Hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað. Hann þrumar hátt út yfir haglendi sitt, raust hans gellur, eins og hróp þeirra, sem vínber troða.31Dynurinn berst öllum þeim sem á jörðu búa, út á enda jarðar, því að Drottinn þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm við allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu! segir Drottinn.32Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar.33Þeir sem Drottinn hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.34Æpið, hirðar, og kveinið! Veltið yður í duftinu, þér leiðtogar hjarðarinnar! Því að yðar tími er kominn, að yður verði slátrað og yður tvístrað, og þér skuluð detta niður eins og verðmætt ker.35Þá er ekkert athvarf lengur fyrir hirðana og engin undankoma fyrir leiðtoga hjarðarinnar.36Heyr kvein hirðanna og óp leiðtoga hjarðarinnar, af því að Drottinn eyðir haglendi þeirra,37og hin friðsælu beitilönd eru gjöreydd orðin fyrir hinni brennandi reiði Drottins.38Hann hefir yfirgefið skógarrunn sinn, eins og ljónið, já, að auðn varð land þeirra fyrir hinu vígfreka sverði og fyrir hans brennandi reiði.

25.1 Á fjórða stjórnarári Jer 36.1; 45.1; 46.2
25.3 Frá þrettánda stjórnarári Jer 1.2+
25.4 Þjóna sína Jer 7.25+
25.5 Hverfið Jer 18.11
25.6 Elta aðra guði Jer 7.9+ – vekja reiði Jer 25.7; 32.29-30; 44.8
25.9 Ættbálkar fyrir norðan Jer 1.14+ – gegn Júda Jer 1.15; Jes 5.26; 10.5-6 – ógn og aðhlátursefni Jer 18.16+ – þjónn minn Jer 27.6; 43.10
25.10 Gleðióp hverfa Jer 16.9+
25.11 Sjötíu ár, mannsævi Slm 90.10 – refsitími Júda Jer 29.10; Sak 1.12; 7.5; Dan 9.2; 2Kro 36.21
25.12 Draga til ábyrgðar Jes 10.16-19
25.13 Rætast Jer 11.8 – hótunarorð Jer 46-51; sbr 1.5
25.14 Babýlónar þrælar Jer 27.7 – Guð endurgeldur Jer 50.29; 51.6,24,56; Jes 59.18; 66.6; sbr Jer 17.10; Slm 28.4; 62.13; 137.8
25.15 Bikar reiðinnar (reiði Guðs) Jer 25-27; 48.26; 49.12; 51.39,57; Jes 29.9-10; 51.17; Esk 23.32-34; Ób 16; Nah 3.11; Hab 2.16; Slm 60.5; 75.9; Hlj 4.21; Opb 14.10; 15.7; 16.1; 21.9; sbr Mrk 14.36 og hlst.
25.16 Viti sínu fjær andsænis sverðinu Jer 25.27; 50.35-37
25.18 Borgirnar, konungar og höfðingjar Jer 25.29; 17.20; 19.3; 21.11-14; 22.6-9 – rúst Jer 18.16+ ; 44.22 – nú er fram komið Jer 44.6,22,23
25.19 Um Egyptaland Jer 46.2-28; Jes 19-20; Esk 29-30
25.20 Filistear Jer 47.1-7; Am 1.6+
25.21 Edóm Jer 49.7-22; Am 1.11+ – Móab Jer 48.1-47; Am 2.1+ – Ammon Jer 49.1-6; Am 1.13+
25.22 Týrus og Sídon Am 1.9+
25.23 Dedan og Tema Jes 21.13-14 – hárið skorið stutt Jer 9.26; 49.32
25.24 Arabía Jer 49.28-39; Jes 21.13-17
25.25 Elam Jer 49.34-39
25.26 Öll konungsríki drekka Nah 3.11 – Babýlon Jer 50-51; Jes 13.1-14.23; 21.1-10
25.27 Refsing sbr Jer 25.15
25.29 Kennd við mig Jer 7.10+ – komist ekki undan Jer 49.12
25.30 Drottinn öskrar Am 1.2 – hagi Drottins Jer 10.25
25.31 Drottinn höfðar mál Hós 4.1; Mík 6.1-2; Slm 50.6
25.32 Stormur Jer 23.19; 30.23-24
25.33 Eigi grafnir Jer 8.2+
25.34 Leiðtogar hjarðarinnar Jer 6.3
25.35 Ekkert skjól Am 2.14
25.37 Þögn Slm 94.17 – brennandi reiði Jer 4.8+