1Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins.2Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli.3Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí,4til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins.5Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld.6Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið.7Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu.8Þá mælti Abram við Lot: Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur.9„Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri.“10Þá hóf Lot upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.11Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir.12Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu.13En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni.14Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs.15Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega.16Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir.17Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það.18Og Abram færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.

13.2 Stórauðugur 1Mós 24.35; 30.43; 32.5; Slm 112.1-3; Job 1.3,10; Okv 3.9-10
13.7 Hjarðmenn 1Mós 26.20
13.10 Sódóma og Gómorra 1Mós 18.16+
13.13 Illir 1Mós 18.20; 19.4-11
13.15 Fyrirheit um land 1Mós 12.7+
13.18 Mamre 1Mós 18.1; 23.17-19; 25.9; 49.30; 50.13 – Hebron 4Mós 13.22; 2Sam 2.1; 3.2-5; 5.1-5; 15.7-10; 1Makk 5.65