1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:2Hvað kemur til, að þér hafið þetta orðtak um Ísraelsland: Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar?3Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skuluð þér ekki framar hafa þetta orðtak í Ísrael.4Sjá, mínar eru sálirnar allar, sál föðurins eins og sál sonarins, mínar eru þær. Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.5Hver sá maður, sem er ráðvandur og iðkar rétt og réttlæti,6sem etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns og kemur ekki nærri konu meðan hún hefir klæðaföll,7sem engan undirokar og skilar aftur skuldaveði sínu, tekur ekki neitt frá öðrum með ofbeldi, sem gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum,8sem lánar ekki fé gegn leigu og tekur ekki vexti af lánsfé, sem heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, og dæmir rétt í deilumálum manna,9sem breytir eftir boðorðum mínum og varðveitir skipanir mínar, með því að gjöra það sem rétt er, hann er ráðvandur og skal vissulega lifa, segir Drottinn Guð.10En eignist hann ofbeldisfullan son, sem úthellir blóði og fremur ranglæti,11sem ekki fetar í fótspor síns ráðvanda föður, heldur etur fórnarkjöt á fjöllunum og flekkar konu náunga síns,12undirokar volaða og snauða, tekur frá öðrum með ofbeldi, skilar ekki aftur veði og hefur augu sín til skurðgoða, fremur svívirðingar,13lánar fé gegn leigu og tekur vexti af lánsfé, ætti hann að halda lífi? Hann skal ekki lífi halda! Af því að hann hefir framið allar þessar svívirðingar, skal hann vissulega deyja. Blóð hans komi yfir hann!14En eignist hann son, sem sér allar þær syndir, sem faðir hans drýgði, og óttast og breytir ekki eftir þeim,15etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns16og undirokar engan, tekur ekkert veð og tekur ekkert frá öðrum með ofbeldi, gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum,17heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, tekur ekki vexti né fjárleigu, heldur skipanir mínar og breytir eftir boðorðum mínum, sá skal ekki deyja sakir misgjörða föður síns, heldur skal hann vissulega lífi halda.18En af því að faðir hans hefir beitt kúgun og tekið frá öðrum með ofbeldi og gjört það, sem ekki var gott, meðal þjóðar sinnar, þá hlýtur hann að deyja fyrir misgjörð sína.19Og þá segið þér: Hví geldur sonurinn ekki misgjörðar föður síns? Þar sem þó sonurinn iðkaði rétt og réttlæti, varðveitti öll boðorð mín og breytti eftir þeim, skal hann vissulega lífi halda.20Sá maður, sem syndgar, hann skal deyja. Sonur skal eigi gjalda misgjörðar föður síns og faðir skal eigi gjalda misgjörðar sonar síns. Ráðvendni hins ráðvanda skal koma niður á honum og óguðleiki hins óguðlega skal koma niður á honum.21Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann vissulega lífi halda og ekki deyja.22Öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, skulu honum þá eigi tilreiknuð verða. Vegna ráðvendninnar, sem hann hefir iðkað, skal hann lífi halda.23Ætli ég hafi þóknun á dauða hins óguðlega segir Drottinn Guð og ekki miklu fremur á því, að hann hverfi frá sinni illu breytni og haldi lífi?24En hverfi hinn ráðvandi frá ráðvendni sinni og fremji það, sem rangt er, í líkingu við allar þær svívirðingar, er hinn óguðlegi hefir framið, þá skal öll sú ráðvendni, er hann hefir iðkað, ekki til álita koma. Fyrir það tryggðrof, sem hann hefir sýnt, og þá synd, sem hann hefir drýgt, fyrir þær skal hann deyja.25En er þér segið: Atferli Drottins er ekki rétt! þá heyrið, þér Ísraelsmenn: Ætli það sé mitt atferli, sem ekki er rétt? Ætli það sé ekki fremur yðar atferli, sem ekki er rétt?26Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og gjörir það, sem rangt er, þá hlýtur hann að deyja vegna þess. Vegna glæps þess, er hann hefir framið, hlýtur hann að deyja.27En þegar óguðlegur maður hverfur frá óguðleik sínum, sem hann hefir í frammi haft, og iðkar rétt og réttlæti, þá mun hann bjarga lífi sínu.28Því að hann sneri sér frá öllum syndum sínum, er hann hafði framið, fyrir því mun hann vissulega lífi halda og ekki deyja.29Og þegar Ísraelsmenn segja: Atferli Drottins er ekki rétt! ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt?30Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar.31Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn?32Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.

18.6 Skurðgoð 2Mós 20.3; 3Mós 19.4; 5Mós 5.7; 6.14-15; 13 – kona náungans 2Mós 20.14; 3Mós 18.29; 20.10; 5Mós 5.18 – óhrein kona 3Mós 18.19
18.7 Beitir engan ofríki 3Mós 19.13; 5Mós 24.14-15 – skuldaveð 2Mós 22.25-26; 5Mós 24.6,10-13 – rán 3Mós 19.11; 5Mós 23.24-25; Jes 5.8 – gefa mat, klæði 3Mós 19.9-10; 5Mós 24.19-20; 26.12
18.8 Lána fé gegn leigu, vextir 2Mós 22.25; 3Mós 25.35-37; 5Mós 23.19 – fella úrskurð 2Mós 23.6-8; 3Mós 19.15-18,35; 2Mós 25.13-16
18.20 Ábyrgð einstaklingsins Esk 14.12-20; 5Mós 7.10; 24.16; 2Kon 14.6; Jer 31.29-30 – sameiginleg ábyrgð 1Mós 18.22-32; 2Mós 20.5-6; 34.7; 3Mós 26.39; 4Mós 14.33
18.31 Nýtt hjarta, nýr andi Esk 11.19+