1Þegar Jabín, konungur í Hasór, spurði þessi tíðindi, gjörði hann orð Jóbab, konungi í Madón, svo og konunginum í Simron og konunginum í Aksaf2og konungunum, sem fyrir norðan bjuggu, í fjalllendinu, á sléttlendinu fyrir sunnan Kínneret, á láglendinu og á Dórhæðum úti við hafið,3Kanaanítum, bæði fyrir austan og vestan, Amorítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum í fjalllendinu og Hevítum neðan undir Hermon í Mispalandi.4„Héldu þeir af stað með allan sinn her; var það mannfjöldi svo mikill sem sandur á sjávarströnd. Höfðu þeir fjölda hesta og vagna.“5Allir þessir konungar áttu með sér stefnu, fóru síðan og settu herbúðir sínar allir samt hjá Merómvötnum og bjuggust að eiga orustu við Ísrael.6Þá sagði Drottinn við Jósúa: Ekki skalt þú hræðast þá, því að á morgun í þetta mund mun ég láta þá alla liggja fallna frammi fyrir Ísrael. Þú skalt skera sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenna vagna þeirra í eldi.7Og Jósúa kom að þeim óvörum hjá Merómvötnum með allan sinn her, og gjörðu þeir áhlaup á þá.8Og Drottinn gaf þá í hendur Ísrael, og þeir unnu sigur á þeim og eltu þá allt til Sídon hinnar miklu og til Misrefót Majím og allt austur í Mispedal, og þeir felldu þá, svo að enginn af þeim komst undan.9Og Jósúa fór með þá, eins og Drottinn hafði sagt honum: Hann skar sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenndi vagna þeirra í eldi.10Þá sneri Jósúa aftur og vann Hasór og felldi konung hennar með sverði, en Hasór var fyrrum höfuðborg allra þessara konungsríkja.11Og þeir felldu alla menn, er í henni voru, með sverðseggjum, með því að þeir bannfærðu þá. Var engin lifandi sála eftir skilin, og Hasór brenndi hann í eldi.12Jósúa náði á sitt vald öllum borgum þessara konunga, svo og konungunum sjálfum, og hann felldi þá með sverðseggjum, með því að hann bannfærði þá, eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið.13„Þó lögðu Ísraelsmenn ekki eld í neinar þær borgir, sem stóðu uppi á hæðum, nema Hasór eina; hana brenndi Jósúa.“14En öllu herfangi úr borgum þessum rændu Ísraelsmenn sér til handa, svo og fénaðinum, en menn alla felldu þeir með sverðseggjum, uns þeir höfðu gjöreytt þeim. Létu þeir enga lifandi sálu eftir.15Eins og Drottinn hafði boðið Móse, þjóni sínum, svo hafði Móse boðið Jósúa, og svo gjörði Jósúa. Hann lét ekkert ógjört af því, sem Drottinn hafði boðið Móse.16Þannig lagði Jósúa undir sig allt þetta land: fjalllendið, allt suðurlandið, allt Gósenland, láglendið, sléttlendið, svo og Ísraelsfjöll og láglendið, sem að þeim liggur,17frá Skallabergi, sem liggur upp til Seír, til Baal Gað í Líbanonsdal undir Hermonfjalli. Og öllum konungum þeirra náði hann á sitt vald, vann sigur á þeim og lét drepa þá.18Um langa hríð átti Jósúa í orustum við konunga þessa.19Engin var sú borg, er friðsamlega gengi Ísraelsmönnum á vald, nema Hevítar, þeir er bjuggu í Gíbeon. Allt unnu þeir með hernaði.20Því að það var frá Drottni komið, að hann stælti hjörtu þeirra til að fara í móti Ísrael til bardaga, til þess að þeir yrðu vægðarlaust bannfærðir og gjöreyddir, eins og Drottinn hafði boðið Móse.21Í það mund fór og Jósúa og eyddi Anakítum úr fjalllendinu við Hebron, úr Debír, úr Anab og úr öllum Júdafjöllum og úr öllum Ísraelsfjöllum. Jósúa bannfærði þá, ásamt borgum þeirra.22Engir Anakítar urðu eftir í landi Ísraelsmanna, aðeins í Gasa, Gat og Asdód urðu nokkrir eftir.23Jósúa vann allt landið, öldungis eins og Drottinn hafði boðið Móse, og Jósúa gaf það Ísraelsmönnum til eignar, hverri ættkvísl sinn hluta. Eftir það létti ófriði af landinu.

11.1 Jabín Dóm 4.2-24; Slm 83.10 – alla þessa konunga Slm 48.5; sbr Slm 2.2
11.3 Þjóðirnar 5Mós 7.1
11.4 Sem sandur á sjávarströnd 1Mós 22.17; 32.12; 41.49; Dóm 7.12; 1Sam 13.5
11.6 Óttastu ekki Jós 10.25+
11.12 Boð Móse 5Mós 20.16-17
11.16 Allt landið sigrað Jós 10.40+
11.19 Gíbeon Jós 9.3-14
11.20 Efla þeim kjark 2Mós 4.21; 9.12; 10.20,27; 11.10; 14.4,8,17
11.21 Anakítar 5Mós 2.10-11; Dóm 1.20
11.23 Ófriði lauk Jós 14.15; Dóm 3.11+ ; 2Kro 13.23; 14.5; sbr Jós 21.44+