1Ef maður finnst veginn í landi því, er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, liggjandi úti á víðavangi, en enginn veit, hver hann hefir drepið,2þá skulu öldungar þínir og dómendur fara út og mæla fjarlægðina til borganna, er liggja hringinn í kringum hinn vegna.3Og sú borg, sem næst er hinum vegna, öldungar þeirrar borgar skulu taka kvígu, sem eigi hefir höfð verið til vinnu né gengið hefir undir oki.4Því næst skulu öldungar borgarinnar fara með kvíguna ofan í dal með sírennandi vatni, sem hvorki er yrktur né sáinn, og þar í dalnum skulu þeir brjóta kvíguna úr hálsliðnum.5Þá skulu prestarnir, synir Leví, ganga fram, því að þá hefir Drottinn Guð þinn útvalið til að þjóna sér og til þess að blessa í nafni Drottins, og eftir atkvæði þeirra skal skera úr öllum þrætumálum og meiðslamálum,6og allir öldungar þeirrar borgar, þeir er næstir eru hinum vegna, skulu þvo hendur sínar yfir kvígunni, sem hálsbrotin var í dalnum,7og þeir skulu taka til orða og segja: Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði og augu vor hafa ekki séð það.8Fyrirgef, Drottinn, lýð þínum, Ísrael, er þú hefir leyst, og lát ekki lýð þinn Ísrael gjalda saklauss blóðs! Og þeim skal blóðsökin upp gefin verða.9Þannig skalt þú hreinsa þig af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.10Þegar þú fer í hernað við óvini þína og Drottinn Guð þinn gefur þá í hendur þér og þú hertekur fólk meðal þeirra,11og þú sér meðal hinna herteknu konu fríða sýnum og fellir hug til hennar og vilt taka hana þér fyrir konu,12þá skalt þú leiða hana inn í hús þitt, og hún skal raka höfuð sitt og skera neglur sínar13og fara úr fötum þeim, er hún var hernumin í. Síðan skal hún dvelja í húsi þínu og gráta föður sinn og móður heilan mánuð. Eftir það mátt þú ganga inn til hennar og samrekkja henni og hún vera kona þín.14En fari svo, að þú hafir eigi lengur þokka til hennar, þá skalt þú láta hana algjörlega lausa og mátt alls eigi selja hana við verði. Þú skalt ekki fara með hana sem ambátt, fyrir því að þú hefir spjallað hana.15Ef maður á tvær konur, og hefir mætur á annarri en lætur sér fátt um hina, og þær fæða honum sonu, bæði sú er hann hefir mætur á og sú er hann lætur sér fátt um, og frumgetni sonurinn er sonur þeirrar, er hann lætur sér fátt um,16þá skal honum ekki heimilt vera, er hann skiptir því sem hann á meðal sona sinna, að gjöra son konunnar, sem hann hefir mætur á, frumgetinn fram yfir son þeirrar, er hann lætur sér fátt um og frumgetinn er,17heldur skal hann viðurkenna frumgetninginn, son þeirrar, er hann lætur sér fátt um, og gefa honum tvöfaldan hlut af öllu því, er hann á, því að hann er frumgróði styrkleika hans, honum heyrir frumburðarrétturinn.18Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann,19þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima,20og segja við öldunga borgar hans: Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur.21Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér, og allur Ísrael skal heyra það og skelfast.22Þegar maður drýgir synd, sem varðar lífláti, og hann er líflátinn og þú hengir hann á tré,23þá skal líkami hans ekki vera náttlangt á trénu, heldur skalt þú jarða hann samdægurs. Því að sá er bölvaður af Guði, sem hengdur er, og þú skalt ekki saurga land þitt, það er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

21.3 Ok 4Mós 19.2+
21.4 Hálsbrjóta 2Mós 13.13
21.5 Prestarnir, niðjar Levís 5Mós 17.9+ – þjóna Drottni 5Mós 10.8+
21.6 Þvo hendur sínar Slm 26.6+
21.8 Guð leysti Ísrael 5Mós 7.8+
21.9 Útrýma 5Mós 13.6+ – gjöra rétt 5Mós 6.18+
21.14 Selja 2Mós 21.8
21.16 Frumburðaréttur 1Mós 25.31; 27.36; 1Kro 5.1-2
21.17 Tvöfaldur hlutur sbr 2Kon 2.9 – frumgróði karlmennsku 1Mós 49.3
21.18 Ódæll sonur sbr Jes 1.2 – hlýða foreldrum Okv 1.8; 6.20
21.20 Svalllari Okv 23.21; Sír 18.33 – 19.1; Matt 11.19 og hlst.
21.21 Grýta 5Mós 13.11+ – uppræta hið illa 5Mós 13.6+ – frétta 5Mós 13.12+
21.23 Hengdur Jós 8.29; 10.26; Jóh 19.31 og hlst. – landið gefið til eignar 5Mós 3.20+