1Æ, Aríel, Aríel, þú borg, þar sem Davíð sló herbúðum! Bætið ári við þetta ár, lát hátíðirnar fara sinn hring,2þá þrengi ég að Aríel, og hún skal verða hryggð og harmur, og hún skal verða mér sem Aríel.3Ég vil setja herbúðir allt í kringum þig, umlykja þig með varðmönnum og reisa hervirki í móti þér.4Þú skalt tala lágri röddu upp úr jörðinni, og orð þín hljóma dimmum rómi úr duftinu. Rödd þín skal vera sem draugsrödd úr jörðinni og orð þín hljóma sem hvískur úr duftinu.5En mergð fjandmanna þinna skal verða sem moldryk og mergð ofbeldismannanna sem fjúkandi sáðir. Það skal verða skyndilega, á einu augabragði.6Hennar skal verða vitjað af Drottni allsherjar með reiðarþrumu, landskjálfta og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga.7Eins og í draumsýn um nótt, þannig mun fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, sem herja á Aríel, og öllum þeim, sem herja á hana og hervirki hennar og þrengja að henni.8Og eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti, en vaknar svo jafnhungraður, og eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki, en vaknar svo örmagna og sárþyrstur, svo skal fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, er herja á Síonfjall.9Fallið í stafi og undrist, gjörið yður sjónlausa og verið blindir! Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk.10Því að Drottinn hefir úthellt yfir yður svefnsemi-anda og aftur lukt augu yðar spámennina og brugðið hulu yfir höfuð yðar þá sem vitranir fá.11Öll opinberun er yður sem orðin í innsiglaðri bók. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt: Les þú þetta, þá segir hann: Ég get það ekki, því að hún er innsigluð.12En sé bókin fengin þeim, sem eigi kann að lesa, og sagt: Les þú þetta, þá segir hann: Ég er ekki læs.13Drottinn sagði: Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar,14sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.15Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir Drottni og fremja verk sín í myrkrinu og segja: Hver sér oss? Hver veit af oss?16Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: Hann hefir eigi búið mig til, og smíðin geti sagt um smiðinn: Hann kann ekki neitt?17Eftir skamma hríð skal Líbanonskógur verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur.18Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu.19Þá mun aukast gleði hinna auðmjúku yfir Drottni, og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga í Ísrael.20Því að ofbeldismenn eru ekki framar til og spottarar undir lok liðnir, og allir þeir upprættir, er ranglæti iðka,21þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma.22Fyrir því segir Drottinn, hann er frelsaði Abraham, svo um Jakobs hús: Jakob skal eigi framar þurfa að blygðast sín og ásjóna hans eigi framar blikna.23Því að þegar niðjar hans sjá verk handa minna á meðal sín, munu þeir helga nafn mitt, þeir munu helga Hinn heilaga, Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð.24Þá munu hinir andlega villtu átta sig og hinir þverúðarfullu láta sér segjast.

29.1 Herbúðir Davíðs 2Sam 5.6-9 – ár Jes 32.10 – hátíðirnar 3Mós 23.4-37
29.2 Aríel, harmakvein Jes 33.7-9 – Aríel, eldstó sbr Jes 30.33; 31.9; Esk 24.2-14
29.3 Jerúsalem umsetin Jes 1.8; 22.2-11; 36.1-2
29.4 Hinir sigruðu Jes 36.22-37.3
29.5 Mergð fjandmanna Jes 1.7 – eins og ryk Jes 25.2-5
29.7 Eins og draumi Job 20.8 – sem herjar á Aríel Jes 31.4-5; 36-37
29.9 Blinda Jes 6.9-10 – drukknir Jes 51.21; sbr Jer 25.15+
29.10 Anda svefnhöfgi 1Sam 26.12; Róm 11.8; sbr 2Kon 6.18 – spámenn Mík 3.6-7
29.11 Innsiglaðri bók Jer 32.9-14; Opb 5.1-5
29.12 Ég er ólæs Post 8.30-31
29.13 Hjartað er fjarri Jes 1.11-15; Slm 78.36-37 – manna boð Matt 15.8-9; Mrk 7.6-7
29.14 Undursamlega Jes 28.21 – speki spekinga Jes 5.21; 1Kor 1.19
29.15 Hylja áform sín Jes 30.1-2; sbr Jes 28.15 – í myrkri Jóh 3.19-20 – hver veit um oss! Job 34.21-22
29.16 Leirinn og smiðinn Jes 45.9; Jer 18.6; Róm 9.20
29.17 Skógur, aldingarður Jes 32.15; 35.1-2; 41.18; 51.3; sbr 28.9-13
29.18 Hinir daufu heyra Jes 35.5; 42.16-19; sbr Jes 6.10; 29.11-12; 43.8
29.19 Gleði auðmjúkra Jes 41.17; Matt 5.3-4 – Hinn heilagi í Ísrael Jes 1.4+
29.20 Kúgarar og skrumarar Jes 29.5; 28.14,22
29.21 Sakfella Jes 10.1-2 – saklausa Jes 5.23
29.22 Drottinn endurleysir Jes 35.10; 51.11 – Abraham Jes 41.8; 51.2; 63.16
29.23 Verk Drottins Jes 5.12; 28.21 – börn sín sbr Jes 49.21; 54.1 – helga Jes 8.13 – Hinn heilagi sbr Jes 1.4+ ; Jes 49.26
29.24 Villuráfandi í anda Jes 29.18; sbr Jes 28.9; 30.9