1Allur lýðurinn safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Og þeir báðu Esra fræðimann að sækja lögmálsbók Móse, er Drottinn hafði sett Ísrael.2Þá kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar.3Og hann las upp úr því á torginu, sem er fyrir framan Vatnshliðið, frá birtingu til hádegis, í viðurvist karla og kvenna og þeirra barna, er vit höfðu á, og eyru alls lýðsins hlýddu á lögmálsbókina.4Esra fræðimaður stóð á háum trépalli, er menn höfðu gjört til þessa, og hjá honum stóðu Mattitja, Sema, Anaja, Úría, Hilkía og Maaseja, honum til hægri hliðar, og honum til vinstri hliðar Pedaja, Mísael, Malkía, Hasúm, Hasbaddana, Sakaría og Mesúllam.5Og Esra lauk upp bókinni í augsýn alls fólksins, því að hann stóð hærra en allur lýðurinn, og þegar hann lauk henni upp, stóð allur lýðurinn upp.6Og Esra lofaði Drottin, hinn mikla Guð, og allur lýðurinn svaraði: Amen! amen! og fórnuðu þeir um leið upp höndunum og beygðu sig og féllu fram á ásjónur sínar til jarðar fyrir Drottni.7Og levítarnir Jesúa, Baní, Serebja, Jamín, Akkúb, Sabtaí, Hódía, Maaseja, Kelíta, Asarja, Jósabad, Hanan og Pelaja skýrðu lögmálið fyrir lýðnum, en fólkið var kyrrt á sínum stað.8Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.9Og Nehemía það er landstjórinn og Esra prestur, fræðimaðurinn, og levítarnir, sem fræddu lýðinn, sögðu við gjörvallan lýðinn: Þessi dagur er helgaður Drottni, Guði yðar. Sýtið eigi né grátið! Því að allur lýðurinn grét, þegar þeir heyrðu orð lögmálsins.10Og Esra sagði við þá: Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar.11Og levítarnir sefuðu allan lýðinn með því að segja: Verið hljóðir, því að þessi dagur er heilagur. Verið því eigi hryggir.12Þá fór allt fólkið til þess að eta og drekka og senda skammta og halda mikla gleðihátíð, því að þeir höfðu skilið þau orð, er menn höfðu kunngjört þeim.13Daginn eftir söfnuðust ætthöfðingjar alls lýðsins, prestarnir og levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að gefa gaum að orðum lögmálsins.14Þá fundu þeir ritað í lögmálinu, er Drottinn hafði sett þeim fyrir Móse, að Ísraelsmenn skyldu búa í laufskálum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum,15og að þeir ættu að kunngjöra og láta boð út ganga í öllum borgum sínum og í Jerúsalem á þessa leið: Farið upp í fjöll og komið með greinar af olíuviði og greinar af villi-olíuviði og greinar af mýrtusviði og greinar af pálmaviði og greinar af þéttlaufguðum trjám, til þess að gjöra af laufskála, eins og skrifað er.16Og fólkið fór og sótti greinar, og þeir gjörðu sér laufskála hver á sínu húsþaki og í forgörðum sínum og í forgörðum Guðs húss og á torginu fyrir framan Vatnshliðið og á torginu fyrir framan Efraímhliðið.17Og allur söfnuðurinn, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, byggðu laufskála og bjuggu í laufskálunum. Því að Ísraelsmenn höfðu eigi gjört það síðan á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags, og varð þar því mjög mikil gleði.18Og það var lesið upp úr lögmálsbók Guðs á degi hverjum, frá fyrsta degi til hins síðasta dags. Og þeir héldu hátíð í sjö daga, og áttunda daginn var hátíðasamkoma, eins og fyrirskipað var.

8.2 Sjöundi mánuðurinn Esr 3.1
8.6 Fólkið svarði: Amen Neh 5.13+
8.17 Höfðu ekki gert þetta sbr Esr 3.4
8.18 Hátíðarsamkoma 3Mós 23.36