1Drottinn talaði við Móse og sagði:2Bjóð þú Ísraelsmönnum að láta burt fara úr herbúðunum alla menn líkþráa og alla, er rennsli hafa, svo og alla þá, er saurgaðir eru af líki.3Skuluð þér láta burt fara bæði karla og konur, þér skuluð láta þá fara út fyrir herbúðirnar, svo að þeir saurgi ekki herbúðir sínar, með því að ég bý á meðal þeirra.4Og Ísraelsmenn gjörðu svo og létu þá fara út fyrir herbúðirnar. Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn.5Drottinn talaði við Móse og sagði: Tala þú til Ísraelsmanna:6Þá er karl eða kona drýgir einhverja þá synd, er menn hendir, með því að sýna sviksemi gegn Drottni, og sá hinn sami verður sekur,7þá skulu þau játa synd sína, er þau hafa drýgt, og bæta skulu þau sekt sína fullu verði og gjalda fimmtungi meira og greiða það þeim, er þau hafa orðið sek við.8En eigi maðurinn engan nákominn ættingja, er sektin verði greidd, þá skal sektin, er greiða skal, heyra Drottni og falla undir prest, auk friðþægingarhrútsins, sem friðþægt er með fyrir þau.9Sérhver fórnargjöf af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna, sem þeir færa prestinum, skal vera hans eign,10og það sem sérhver helgar, skal vera hans eign. Það sem einhver gefur prestinum, skal vera hans eign.11Drottinn talaði við Móse og sagði:12Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú gjörist kona marglát og reynist ótrú manni sínum.13Annar maður hefir samræði við hana, en maður hennar veit eigi af. Hún verður eigi uppvís að og hefir þó saurgað sig, og engin vitni eru mót henni og hún er eigi að því staðin.14En yfir manninn kemur afbrýðisandi, svo að hann verður hræddur um konu sína, og hún hefir saurgað sig. Eða afbrýðisandi kemur yfir mann, og hann verður hræddur um konu sína, þótt hún hafi eigi saurgað sig.15Þá fari maðurinn með konu sína til prestsins og færi honum fórnargjöfina fyrir hana: tíunda part úr efu af byggmjöli. Eigi skal hann hella yfir það olíu né leggja reykelsiskvoðu ofan á það, því að það er afbrýðismatfórn, minningarmatfórn, sem minnir á misgjörð.16Presturinn skal taka konuna og leiða hana fram fyrir Drottin.17Og prestur skal taka heilagt vatn í leirker, og prestur skal taka mold af gólfi búðarinnar og láta í vatnið.18Og prestur skal leiða konuna fram fyrir Drottin og leysa hár konunnar og fá henni í hendur minningarmatfórnina það er afbrýðismatfórn. En á beiskjuvatninu, er bölvan veldur, skal presturinn halda.19Prestur skal særa hana og segja við konuna: Hafi enginn maður hjá þér legið og hafir þú eigi saurgað þig með lauslæti í hjúskap þínum, þá verði þetta beiskjuvatn, sem bölvan veldur, þér ósaknæmt.20En hafir þú verið lauslát í hjúskapnum og hafir þú saurgast og einhver annar en maður þinn hefir haft samræði við þig,21þá skal prestur láta konuna vinna bölvunarsæri, og prestur skal segja við konuna: Drottinn gjöri þig að bölvan og að særi meðal fólks þíns, er Drottinn lætur lendar þínar hjaðna og kvið þinn þrútna.22Og vatn þetta, er bölvan veldur, skal fara í innyfli þín, svo að kviðurinn þrútni og lendarnar hjaðni. Og konan skal segja: Amen, amen!23Síðan skal prestur rita formælingu þessa í bók og strjúka hana út í beiskjuvatnið,24og hann skal láta konuna drekka beiskjuvatnið, er bölvan veldur, svo að vatnið, sem bölvan veldur, fari ofan í hana og verði að beiskju.25Og presturinn skal taka við afbrýðismatfórninni úr hendi konunnar, og hann skal veifa matfórninni frammi fyrir Drottni og bera hana á altarið.26Og presturinn skal taka hnefafylli af matfórninni sem ilmhluta hennar og brenna á altarinu. Síðan skal hann láta konuna drekka vatnið.27Og þegar hann hefir látið hana drekka vatnið, þá skal svo fara, að hafi hún saurgað sig og verið manni sínum ótrú, þá skal vatnið, er bölvan veldur, fara ofan í hana og verða að beiskju, og kviður hennar þrútna og lendar hennar hjaðna, og konan skal verða að bölvan meðal fólks síns.28En hafi konan ekki saurgað sig og sé hún hrein, þá skal það ekki saka hana, og hún mun geta fengið getnað.29Þetta eru lögin um afbrýðisemi, þegar gift kona gjörist marglát og saurgar sig30eða þegar afbrýðisandi kemur yfir mann og hann verður hræddur um konu sína, þá skal hann leiða konuna fram fyrir Drottin, og prestur skal með hana fara í alla staði eftir lögum þessum.31Maðurinn skal vera sýkn saka, en konan skal bera sekt sína.

5.2 Holdsveika 3Mós 13.45-46+
5.3 Guð býr meðal Ísraelsmanna 3Mós 15.31+
5.6 Rjúfa trúnað 3Mós 5.15
5.7 Bæta 3Mós 5.24
5.9 Helgigjafir 3Mós 5.14-16; 22.10-16
5.15 Ekki olíu 3Mós 5.11
5.18 Vatn sem veldur bölvun sbr 2Mós 15.23-25
5.21 Bölvun Jes 65.15; Jer 42.18
5.24 Drekka vatnið sbr Esk 2.8-3.3