1Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.2Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur.3Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna heilögu á gullaltarið frammi fyrir hásætinu.4Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna heilögu úr hendi engilsins frammi fyrir Guði.5Þá tók engillinn reykelsiskerið og fyllti það eldi af altarinu og varpaði ofan á jörðina. Og þrumur komu og dunur og eldingar og landskjálfti.6Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása.7Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga.8Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð,9og þriðjungurinn dó af lífverum þeim, sem eru í hafinu, og þriðjungur skipanna fórst.10Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna.11Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin.12Fjórði engillinn básúnaði. Þá varð þriðjungur sólarinnar lostinn og þriðjungur tunglsins og þriðjungur stjarnanna, svo að þriðjungur þeirra yrði myrkur. Og dagurinn missti þriðjung birtu sinnar og nóttin hið sama.13Þá sá ég og heyrði örn einn fljúga um háhvolf himins. Hann kallaði hárri röddu: Vei, vei, vei þeim, sem á jörðu búa, vegna lúðurhljóma englanna þriggja, sem eiga eftir að básúna.

8.1 Þögn Hab 2.20; Sef 1.7; Sak 2.17; SSal 18.14
8.2 Básúnur Matt 24.31; 1Kor 15.52
8.3 Bænir og reykelsi Slm 141.2; Opb 5.8 – reykelsisaltari 2Mós 30.1-3; Opb 9.13
8.5 Þrumur og dunur Opb 4.5+
8.7 Hagl og eldur 2Mós 9.23-24; Esk 38.22; SSal 16.22
8.8 Logandi fjalli varpað í hafið Jer 51.25 – breyttist í blóð 2Mós 7.17-21; Opb 16.3-4
8.10 Stjarna fellur Jes 14.12; Opb 9.1
8.11 Remma Am 5.7; 6.12; Jer 9.14
8.12 Stjörnur myrkvast 2Mós 10.21-23; SSal 17; Opb 6.12-14+