1Þá svaraði Job og sagði:2Ég hefi heyrt nóg af slíku, hvimleiðir huggarar eruð þér allir saman.3Er orðavindurinn nú á enda? eða hvað knýr þig til andsvara?4Ég gæti líka talað eins og þér, ef þér væruð í mínum sporum, gæti spunnið saman ræður gegn yður og hrist yfir yður höfuðið,5ég gæti styrkt yður með munni mínum, og meðaumkun vara minna mundi lina þjáning yðar.6Þótt ég tali, þá linar ekki kvöl mína, og gjöri ég það ekki, hvaða létti fæ ég þá?7Miklu fremur hefir Guð nú örþreytt mig, þú hefir eytt öllu ættliði mínu,8hefir hremmt mig, og það er vitni í móti mér. Sjúkdómur minn rís í gegn mér, ákærir mig upp í opið geðið.9Reiði hans slítur mig sundur og ofsækir mig, hann nístir tönnum í móti mér, andstæðingur minn hvessir á mig augun.10Þeir glenna upp ginið í móti mér, löðrunga mig til háðungar, allir saman gjöra þeir samtök í móti mér.11Guð gefur mig á vald ranglátra og varpar mér í hendur óguðlegra.12Ég lifði áhyggjulaus, þá braut hann mig sundur, hann þreif í hnakkann á mér og molaði mig sundur og reisti mig upp sér að skotspæni.13Skeyti hans fljúga kringum mig, vægðarlaust sker hann sundur nýru mín, hellir galli mínu á jörðu.14Hann brýtur í mig skarð á skarð ofan og gjörir áhlaup á mig eins og hetja.15Ég hefi saumað sekk um hörund mitt og stungið horni mínu ofan í moldina.16Andlit mitt er þrútið af gráti, og svartamyrkur hvílir yfir hvörmum mínum,17þótt ekkert ranglæti sé í hendi minni og bæn mín sé hrein.18Jörð, hyl þú eigi blóð mitt, og kvein mitt finni engan hvíldarstað!19En sjá, á himnum er vottur minn og vitni mitt á hæðum.20Vinir mínir gjöra gys að mér til Guðs lítur auga mitt grátandi,21að hann láti manninn ná rétti sínum gagnvart Guði og skeri úr milli mannsins og vinar hans.22Því að senn eru þessi fáu ár á enda, og ég fer burt þá leiðina, sem ég aldrei sný aftur.

16.2 Huggarar Job 15.11+
16.5 Styrkjandi orð Okv 12.25
16.8 Hrörnun Job 19.20; 33.21
16.11 Í greipar guðleysingja Job 30.9-14; Slm 22.13-19
16.13 Örvar Guðs Job 6.4+
16.17 Hrein bæn Job 31.1-34; Slm 141.2; 1Tím 2.8; sbr Mrk 12.40 og hlst.
16.18 Blóð mitt 1Mós 37.26; Esk 24.7-8; Opb 16.6+ – neyðaróp mitt 2Mós 14.10; Slm 88.2-3; sbr Hlj 3.44
16.19 Vitni mitt Job 33.23-24; Post 12.15
16.22 Á ekki afturkvæmt Job 7.9+