1Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig, og náði Gat og borgunum umhverfis hana úr höndum Filista.2Hann vann og sigur á Móabítum, og þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs.3Davíð vann og sigur á Hadareser, konungi í Sóba, er liggur á leið til Hamat, þá er hann fór leiðangur til að festa ríki sitt við Efratfljót.4Vann Davíð af honum þúsund vagna, sjö þúsund riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins einu hundraði eftir.5Þegar Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadareser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum.6Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór.7Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadaresers höfðu borið, og flutti til Jerúsalem.8Auk þess tók Davíð afar mikið af eiri í Teba og Kún, borgum Hadaresers. Af því gjörði Salómon eirhafið, súlurnar og eiráhöldin.9Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadaresers, konungs í Sóba,10þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadareser og unnið sigur á honum, því að Tóú átti í ófriði við Hadareser. Og með honum sendi hann alls konar gripi af gulli, silfri og eiri.11Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði haft á burt frá öllum þjóðum: frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum og Amalek.12Og Abísaí Serújuson vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsundum manns.13Og hann setti landstjóra í Edóm, og allir Edómítar urðu þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór.14Og Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar.15Jóab Serújuson var fyrir hernum og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,16Sadók Ahítúbsson og Abímelek Abjatarsson voru prestar og Savsa kanslari.17Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru hinir fyrstu við hönd konungi.

18.1-13 sbr 2Sam 8.1-14
18.14-17 sbr 2Sam 8.15-18