1Eftir þetta spurði Davíð Drottin á þessa leið: Á ég að fara til einhverrar af borgunum í Júda? Drottinn svaraði honum: Já. Þá sagði Davíð: Hvert á ég að fara? Hann svaraði: Til Hebron.2Þá fór Davíð þangað, og með honum báðar konur hans, þær Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel.3Davíð lét og mennina, sem hjá honum voru, fara, hvern með sína fjölskyldu, og þeir settust að í borgunum kringum Hebron.4Þá komu Júdamenn til Hebron og smurðu Davíð til konungs yfir Júda hús. Nú var Davíð sagt svo frá: Íbúarnir í Jabes Gíleað hafa jarðað Sál.5Þá gjörði Davíð menn á fund íbúanna í Jabes í Gíleað og lét segja við þá: Verið blessaðir af Drottni fyrir það, að þér hafið sýnt þetta kærleiksverk á herra yðar Sál, að jarða hann.6Drottinn sýni yður nú kærleika og trúfesti. En ég vil og yður góðu launa, sakir þess að þér gjörðuð þetta.7Og verið nú hughraustir og látið á sjá, að þér séuð vaskir menn. Því að Sál, herra yðar, er dauður, enda hefir Júda hús smurt mig til konungs yfir sig.8Abner Nersson, hershöfðingi Sáls, tók Ísbóset, son Sáls, og fór með hann yfir til Mahanaím9og gjörði hann að konungi yfir Gíleað, Asserítum, Jesreel, Efraím, Benjamín og yfir öllum Ísrael.10Ísbóset, sonur Sáls, var fertugur, þá er hann varð konungur yfir Ísrael, og hann ríkti í tvö ár. Júda hús eitt fylgdi Davíð.11Og tíminn, sem Davíð var konungur í Hebron, yfir Júda húsi, var sjö ár og sex mánuðir.12Abner Nersson fór með þjóna Ísbósets, sonar Sáls, frá Mahanaím til Gíbeon.13Jóab Serújuson fór og með þjóna Davíðs frá Hebron, og varð fundur þeirra við Gíbeontjörn, og settust þeir sínum megin hvorir við tjörnina.14Þá sagði Abner við Jóab: Standi upp sveinar hvorra tveggja og leiki nokkuð til skemmtunar oss. Jóab kvað að svo skyldi vera.15Þá stóðu þeir upp og gengu fram eftir tölu: tólf fyrir Benjamíns ættkvísl, fyrir Ísbóset, son Sáls, og tólf af þjónum Davíðs.16Þeir þrifu hver í annars koll og lögðu sverði hver í annars síðu, svo að þeir féllu hver með öðrum. Var sá staður kallaður Branda-akur, og er hann hjá Gíbeon.17Tókst þá mjög hörð orusta á þeim degi, og fór Abner og Ísraelsmenn halloka fyrir mönnum Davíðs.18Þar voru þrír synir Serúju, þeir Jóab, Abísaí og Asahel, en Asahel var frár á fæti sem skógargeitin í haganum.19Og Asahel rann eftir Abner og veik hvorki til hægri né vinstri, heldur elti hann einan.20Þá sneri Abner sér við og mælti: Ert það þú, Asahel? Hann kvað svo vera.21Þá sagði Abner við hann: Vík þú annaðhvort til hægri eða vinstri, og ráðst þú á einhvern af sveinunum og tak hertygi hans. En Asahel vildi ekki láta af að elta hann.22Þá mælti Abner aftur við Asahel: Lát af að elta mig! Hví skyldi ég leggja þig að velli? Hvernig gæti ég þá litið upp á Jóab bróður þinn?23En hann vildi ekki af láta. Þá lagði Abner spjótinu aftur fyrir sig í kvið honum, svo að út gekk um bakið, og féll hann dauður niður þar sem hann stóð. En allir þeir, er komu þangað sem Asahel hafði fallið niður dauður, námu staðar.24Jóab og Abísaí eltu Abner, og er sól gekk undir, voru þeir komnir til Gíbeat Amma, sem liggur fyrir austan Gía, á leiðinni til Gíbeonóbyggða.25Þá söfnuðust Benjamínítar saman til liðs við Abner og urðu einn flokkur, og námu þeir staðar efst uppi á hæð einni.26Þá kallaði Abner til Jóabs og mælti: Á þá sverðið sífellt að eyða? Veistu eigi, að beisk munu verða endalokin? Hversu lengi ætlar þú að draga að segja liðinu að láta af að elta bræður sína?27Jóab svaraði: Svo sannarlega sem Drottinn lifir, hefðir þú ekki talað, þá hefði liðið ekki látið af að elta bræður sína fyrr en á morgun.28Síðan þeytti Jóab lúðurinn, og nam þá allt liðið staðar og lét af að elta Ísrael og hætti að berjast.29En Abner og menn hans fóru yfir Jórdandalinn alla þá nótt, fóru því næst yfir Jórdan og gengu öll þrengslin og komust til Mahanaím.30Er Jóab hafði látið af að elta Abner, þá safnaði hann saman öllu liðinu, og vantaði þá aðeins nítján manns af mönnum Davíðs og Asahel,31en menn Davíðs höfðu lagt að velli þrjú hundruð og sextíu manns af Benjamínítum, af mönnum Abners.32En Asahel tóku þeir og jörðuðu hann hjá föður hans í Betlehem. Því næst hélt Jóab og menn hans áfram ferðinni alla nóttina og komu til Hebron í dögun.

2.2 Báðar konur hans 1Sam 27.3+
2.8 Mahaníam 2Sam 17.24
2.11 Sjö og hálft ár 2Sam 5.5
2.13 Gíbeontjörn Jer 41.12
2.14 Ganga fram og reyna með sér sbr 1Sam 17.10
2.16 Sá staður nefndur 2Sam 5.20; 6.8; Jós 7.26; 1Sam 23.28
2.23 Námu staðar 2Sam 20.12
2.26 Fóðra sverð 2Sam 11.25; 18.8; 5Mós 32.42; Jes 31.8; Jer 46.10,14
2.28 Þeyta hafurshorn 2Sam 18.16; 20.22; sbr 1Kon 22.36