1Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf, hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.2Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:3Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?4Jesús svaraði þeim: Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:5Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.6Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér.7Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?8Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.9Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.10Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.11Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.12Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það.13Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta.14Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi.15Hver sem eyru hefur, hann heyri.16Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á:17Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.18Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda.19Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.20Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun.21Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.22En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur.23Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag.24En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.25Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.26Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.27Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.28Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.29Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.30Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.

11.1-19 Hlst. Lúk 7.18-35
11.1 Að loknu máli Matt 7.28+
11.2 Jóhannes skírari Matt 3.1+ – lærisveinar hans Matt 9.14+
11.3 Sá, sem koma skal Matt 3.11+
11.5 Sbr Jes 26.19; 29.18; 35.5-6; 61.1
11.6 Sæll Matt 5.3+ – hneykslast á Jesú Matt 5.29+
11.7 Í óbyggðum Matt 3.1+
11.9 Jóhannes skírari, spámaður Matt 14.5; 21.26; Lúk 1.76
11.10 Á undan þér 2Mós 23.20; Mal 3.1; Mrk 1.2; Lúk 1.76; 7.27; Jóh 3.28
11.13 Spámennirnir og lögmálið Matt 7.12+
11.14 Elía Mal 3.23; Matt 16.14; 17.3,10-13; Mrk 9.11-13; Lúk 1.17; Jóh 1.21
11.15 Eyru að heyra 5Mós 29.3; Slm 115.6; Matt 13,9,43; Lúk 8.8; 14.35; Opb 2.7; 13.9; sbr Matt 19.12
11.16 Þessi kynslóð Matt 12.39-45; 17.17
11.18 Meinlæti Jóhannesar Matt 3.4; 9.14 – hefur illan anda Jóh 7.20
11.19 Át og drakk Matt 9.14 – vinur bersyndugra Matt 9.11; Lúk 15.1-2; 19.7
11.20-24 Hlst. Lúk 10.13-15
11.21 Vei Matt 18.7; 23.13-36; 24.19; 26.24; Lúk 6.24; 11.46; 1Kor 9.16; Júd 11; Opb 8.13; 12.12; 18.10 – Betsaída Mrk 6.45; 8.22; Lúk 9.10; 10.13; Jóh 1.44; 12.21 – Týrus (og Sídon) Jes 23.1-8; Esk 26; Am 1.9-10; Matt 15.21; Mrk 3.8; 7.24; Lúk 6.17; 10.13; Post 12.20; 21.3
11.23 Sbr Jes 14.13,15 – Sódóma Matt 10.15+
11.25-30 Hlst. Lúk 10.21-22
11.25 Hulið hyggindamönnum Dan 2.3-13; 1Kor 1.17-29 – opinberað Dan 2.18-19; Matt 13.11 – smælingjar Matt 10.42
11.27 Allt Matt 28.18; Jóh 3.35; 13.3; 17.2; Fil 2.9 – faðirinn og sonurinn Matt 21.37; 24.36; Mrk 14.36; Jóh 1.18; 10.15