1Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann og efldi sig gegn Ísrael.2Hann setti herlið í allar víggirtar borgir í Júda og lét fógeta í Júdaland og Efraímborgir, þær er Asa faðir hans hafði unnið.3Og Drottinn var með Jósafat, því að hann gekk á hinum fyrri vegum Davíðs forföður síns og leitaði ekki Baalanna,4heldur leitaði Guðs föður síns og fór eftir skipunum hans og breytti ekki sem Ísrael.5Þess vegna staðfesti Drottinn konungdóminn í hendi hans, svo að allur Júda færði Jósafat gjafir, svo að honum hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd.6Og með því að honum óx hugur á vegum Drottins, þá afnam hann og fórnarhæðirnar og asérurnar úr Júda.7En á þriðja ríkisári sínu sendi hann höfðingja sína Benhaíl, Óbadía, Sakaría, Netaneel og Míkaja til þess að kenna í Júdaborgum,8og með þeim levítana Semaja, Netanja, Sebadja, Asahel, Semíramót, Jónatan, Adónía, Tobía og Tob Adónía levíta, og ásamt þeim prestana Elísama og Jóram.9Þeir kenndu í Júda og höfðu með sér lögbók Drottins, og fóru um allar borgir í Júda og kenndu lýðnum.10Og ótti við Drottin kom yfir öll heiðnu ríkin, er voru umhverfis Júda, svo að þau lögðu eigi í ófrið við Jósafat.11Og nokkrir af Filistum færðu Jósafat gjafir og silfur í skatt. Einnig færðu Arabar honum fénað: sjö þúsund og sjö hundruð hrúta og sjö þúsund og sjö hundruð geithafra.12Og þannig varð Jósafat æ voldugri, svo að yfir tók, og hann reisti hallir og vistaborgir í Júda.13Hafði hann afar mikinn vistaforða í Júdaborgum, og hermenn hafði hann í Jerúsalem, hina mestu kappa.14Og þetta er tala þeirra eftir ættum þeirra: Af Júda voru þúsundhöfðingjar: Adna höfuðsmaður og þrjú hundruð þúsund hraustir kappar með honum.15Honum næstur gekk Jóhanan höfuðsmaður og tvö hundruð og áttatíu þúsund manns með honum.16Honum næstur var Amasja Síkríson, er sjálfviljuglega hafði gengið Drottni á hönd, og tvö hundruð þúsund hraustir kappar með honum.17En af Benjamín voru: Eljada kappi og tvö hundruð þúsund manns með honum, vopnaðir bogum og buklurum,18og honum næstur Jósabad og hundrað og áttatíu þúsund herbúinna manna með honum.19Þessir voru þeir, er konungi þjónuðu, auk þeirra, er konungur hafði sett í víggirtar borgir í öllu Júdalandi.

17.1-11 sbr 1Kon 15.24; 22.41-45
17.6 Afnam hæðir og asérur 2Mós 23.24+
17.9 Kenna lög Esr 7.25
17.14-18 Herfærir menn 4Mós 1.1+