1Melkísedek þessi var konungur í Salem og prestur Guðs hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann, þegar hann sneri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum.2Og honum lét Abraham í té tíund af öllu. Fyrst þýðir nafn hans réttlætis konungur, en hann heitir enn fremur Salem-konungur, það er friðar konungur.3Hann er föðurlaus, móðurlaus, ekki ættfærður, og hefur hvorki upphaf daga né endi lífs. Hann er líkur syni Guðs, hann heldur áfram að vera prestur um aldur.4Virðið nú fyrir yður, hvílíkur maður það var, sem Abraham, sjálfur forfaðirinn, gaf valda tíund af herfanginu.5Og víst er um það, að þeim Levísonum, er prestþjónustuna fá, er boðið að taka tíund af lýðnum eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir séu komnir af Abraham.6En sá, er eigi var ættfærður til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann, er fyrirheitin hafði.7En með öllu er það ómótmælanlegt, að sá sem er meiri blessar þann sem minni er.8Hér taka dauðlegir menn tíund, en þar tók sá er um var vitnað, að hann lifi áfram.9Og svo má að orði kveða, að enda Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund, þar sem Abraham gjörði það,10því að enn þá var hann í lend forföður síns, þegar Melkísedek gekk á móti honum.11Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, en hann var grundvöllur lögmálsins, sem lýðurinn fékk, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeks, en ekki að hætti Arons?12Þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu.13Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt, og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið.14Því að alkunnugt er, að Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl.15Þetta er enn miklu bersýnilegra á því, að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek.16Hann varð ekki prestur eftir mannlegum lögmálsboðum, heldur í krafti óhagganlegs lífs.17Því að um hann er vitnað: Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.18Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust.19Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.20Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs,21en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu.22Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.23Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.24En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti.25Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.26Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri.27Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.28Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.

7.1 Melkísedek 1Mós 14.17-20
7.5 Ákvæði um tíund 4Mós 18.21
7.14 Jesús af ætt Davíðs Lúk 1.32; Matt 9.27; Róm 1.3; 2Tím 2.8 – af Júda ætt Matt 1.2; Lúk 3.33; Opb 5.5
7.17 Sbr Slm 110.4; Heb 5.6; 6.20
7.22 Betri sáttmáli Heb 8.6
7.25 Kristur biður fyrir þeim Róm 8.34; 1Jóh 2.1
7.26 Æðsti prestur Heb 2.17+
7.27 Fórnir fyrir eigin syndir Heb 5.3+
7.28 Breyskir menn Heb 5.2+