1Sökum Síonar get ég ekki þagað, og sökum Jerúsalem get ég ekki kyrr verið, uns réttlæti hennar rennur upp sem ljómi og hjálpræði hennar sem brennandi blys.2Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafni, er munnur Drottins mun ákveða.3Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.4Þú munt ekki framar nefnd verða Yfirgefin, og land þitt ekki framar nefnt verða Auðn, heldur skalt þú kölluð verða Yndið mitt, og land þitt Eiginkona, því að Drottinn ann þér og land þitt mun manni gefið verða.5Eins og ungur maður fær meyjar, eins munu synir þínir eignast þig, og eins og brúðgumi gleðst yfir brúði, eins mun Guð þinn gleðjast yfir þér.6Ég hefi skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem. Þeir skulu aldrei þegja, hvorki um daga né nætur. Þér sem minnið Drottin á, unnið yður engrar hvíldar!7Ljáið honum engrar hvíldar, uns hann reisir Jerúsalem og gjörir hana vegsamlega á jörðinni.8Drottinn hefir svarið við hægri hönd sína og við sinn máttuga armlegg: Ég mun aldrei framar gefa óvinum þínum korn þitt að eta, og eigi skulu útlendir menn drekka aldinlög þinn, sem þú hefir erfiði fyrir haft,9heldur skulu þeir, sem hirt hafa kornið, eta það sjálfir og lofa Drottin fyrir, og þeir, sem safnað hafa aldinleginum, skulu drekka hann í forgörðum helgidóms míns.10Gangið út, gangið út um borgarhliðin! Greiðið götu lýðsins! Leggið, leggið braut! Ryðjið burt grjótinu! Reisið merki fyrir þjóðirnar!11Sjá, Drottinn gjörir það kunnugt til endimarka jarðarinnar: Segið dótturinni Síon: Sjá, hjálpræði þitt kemur! Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum!12Og þeir munu kallaðir verða hinn heilagi lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú munt kölluð verða hin fjölsótta, borgin, sem eigi var yfirgefin.

62.1 Þagað Jes 42.14+ – ljómi sbr Jes 60.1,3 – réttlæti og hjálpræði Jes 45.8+
62.2 Þjóðirnar, konungar Jes 60.3,11 – nýtt nafn Jes 65.15; Opb 2.17; 3.12
62.4 Yfirgefin, eiginkona Jes 49.14-21; 54.1-8; 60.15
62.5 Æskumaður kvænist ungri stúlku Jes 49.18; 61.10
62.6 Varðmenn Jes 21.6,8; 52.8; Esk 3.17
62.7 Endurreist Jes 54.14 – vegsamlega Jes 60.18; 61.11
62.8 Hægri hönd Drottins Jes 41.10 – armur Jes 40.10+ – Drottinn sver Jes 45.23; 54.9 – njóta erfiðis síns Jes 65.21-22; Am 9.14; sbr 5Mós 28.30-35; Neh 5.15
62.10 Gangið um Jes 48.20; 52.11 – ryðjið braut Jes 40.3; 57.14 – merki Jes 11.10-12; 49.22
62.11 Til endimarka jarðar Jes 48.20 – hjálpræði, frelsari Jes 40.10; sbr Jes 43.3+ – sigurlaun Jes 61.8; Opb 22.12
62.12 Heilög þjóð 2Mós 19.6; sbr Jes 61.6 – hinir endurleystu Jes 41.14+ ; Slm 107.2