1Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka.2Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: Gef oss vatn að drekka! En Móse sagði við þá: Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?3Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?4Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig.5En Drottinn sagði við Móse: Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað.6Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka.7Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?8Þá komu Amalekítar og áttu orustu við Ísraelsmenn í Refídím.9Þá sagði Móse við Jósúa: Vel oss menn og far út og berst við Amalekíta. Á morgun mun ég standa efst uppi á hæðinni og hafa staf Guðs í hendi mér.10Jósúa gjörði sem Móse hafði sagt honum og lagði til orustu við Amalekíta, en þeir Móse, Aron og Húr gengu efst upp á hæðina.11Þá gjörðist það, að alla þá stund, er Móse hélt uppi hendi sinni, veitti Ísraelsmönnum betur, en þegar er hann lét síga höndina, veitti Amalekítum betur.12En með því að Móse urðu þungar hendurnar, tóku þeir stein og létu undir hann, og settist hann á steininn, en þeir Aron og Húr studdu hendur hans, sinn á hvora hlið, og héldust þannig hendur hans stöðugar allt til sólarlags.13En Jósúa lagði Amalekíta og lið þeirra að velli með sverðseggjum.14Þá sagði Drottinn við Móse: Rita þú þetta í bók til minningar og gjör Jósúa það hugfast, því að ég vil vissulega afmá nafn Amalekíta af jörðinni.15Og Móse reisti þar altari og nefndi það Jahve-nisí.16Og hann sagði: Með upplyftri hendi að hásæti Drottins sver ég: Ófrið mun Drottinn heyja við Amalekíta frá kyni til kyns.

17.1-7 Vatn úr kletti 4Mós 20.1-13
17.1 Frá Sín til Refídím 4Mós 33.12-14
17.3 Möglun fólksins 2Mós 14.11+
17.6 Slá á klettinn Jes 43.20; Slm 78.15-16; 105.41; SSal 11.1-14; Jóh 7.38; 19.34; sbr 1Kor 10.4
17.7 Massa og Meríba 5Mós 6.16; 9.22; 33.8; Slm 81.8; 95.8; 106.32
17.8 Amalekítar 4Mós 13.29; 24.20; 5Mós 25.17-19; Dóm 6.3; 1Sam 15; 30.1-20
17.10 Aron og Húr 2Mós 24.14
17.11 Ísraelsmönnum veitti betur Slm 44.5-8