1Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.2Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.3Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?4En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.5Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.6En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann.7En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður.8Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.9Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda.10Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.11Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki.12Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit.13Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur.14Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn.15Hann sagði við þá: Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.16Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.17En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum,18taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.19Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði.20Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu.

16.1-8 Hlst. Matt 26.1-8; Lúk 24.1-12; Jóh 20.1-10
16.1 María Magdalena Matt 27.56+ – smurning til greftrunar Mrk 14.8; Jóh 19.40
16.3 Steinn fyrir gröfinni Jóh 11.38-39
16.5 Klæddur hvítri skikkju Mrk 9.3; Post 1.10; Opb 7.9,13
16.6 Skelfist Jós 1.9; Jes 41.10; Jer 1.8; Matt 17.7; Mrk 5.36; 6.50; Lúk 1.30; 2.9-10; 12.32; Jóh 6.20; Opb 1.18 – upp risinn Post 2.23-24; 3.15; 4.10; 5.30; 10.40; 13.30
16.7 Hinn upprisni birtist Pétri Lúk 24.34; 1Kor 15.5 – til Galíleu Matt 26.32; Mrk 14.28
16.9-11 Hlst. Matt 28.9-10; Jóh 20.11-18
16.9 María Magdalena Matt 27.56+
16.12-13 Hlst. Lúk 24.13-35
16.14-20 Hlst. Matt 28.16-20; Lúk 24.36-53; Jóh 20.19-23; Post 1.6-11
16.16 Trú, skírn, sáluhjálp Post 2.38; 16.31,33
16.17 Illir andar reknir út í nafni Jesú Post 8.7; 16.18 – tala nýjum tungum Post 2.4,11; 10.46; 19.6; 1Kor 14.2-40
16.18 Höggormar Lúk 10.19; Post 28.3-6 – leggja hendur yfir sjúka Matt 9.18+ ; Mrk 5.23+ ; Post 4.30; 5.16; Jak 5.14-15
16.19 Upp numinn til himins 2Kon 2.11; Post 1.9-11; 1Tím 3.16 – til hægri handar Guði Slm 110.1; Matt 22.44+
16.20 Staðfest með táknum Post 14.3; Heb 2.3-4