1Þá komu dætur Selofhaðs Heferssonar, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Manasse Jósefssonar. Þær hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.2Gengu þær fyrir Móse og Eleasar prest og fyrir höfuðsmennina og allan söfnuðinn, fyrir dyrum samfundatjaldsins, og sögðu:3Faðir vor dó í eyðimörkinni, og var hann þó ekki í flokki þeirra manna, er samblástur gjörðu gegn Drottni, í flokki Kóra, því að hann dó vegna sinnar eigin syndar. En hann átti enga sonu.4Hvers vegna á nú nafn föður vors að hverfa úr ætt hans, af því að hann átti engan son? Fá oss óðal meðal bræðra föður vors.5Móse flutti mál þeirra fyrir Drottin.6Og Drottinn sagði við Móse: Dætur Selofhaðs hafa rétt að mæla.7Fá þeim óðalsland meðal bræðra föður þeirra, og þú skalt láta eignarland föður þeirra ganga til þeirra.8En til Ísraelsmanna skalt þú mæla þessum orðum: Nú deyr maður og á ekki son. Skuluð þér þá láta eignarland hans ganga til dóttur hans.9En eigi hann enga dóttur, þá skuluð þér fá bræðrum hans eignarland hans.10En eigi hann enga bræður, þá skuluð þér fá föðurbræðrum hans eignarland hans.11En eigi faðir hans enga bræður, þá skuluð þér fá nánasta skyldmenni hans í ættinni eignarland hans, hann skal eignast það. Þetta skulu lög vera með Ísraelsmönnum, svo sem Drottinn hefir boðið Móse.12Drottinn sagði við Móse: Gakk þú hér upp á Abarímfjall og lít yfir landið, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum.13Og er þú hefir litið það, skalt þú einnig safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn gjörði,14sökum þess að þið þrjóskuðust gegn skipun minni í Síneyðimörk, þá er lýðurinn möglaði og þið skylduð helga mig fyrir augum þeirra með vatninu. Þar eru nú Meríbavötn hjá Kades í Síneyðimörk.15En Móse talaði við Drottin og sagði:16Drottinn, Guð lífsandans í öllu holdi, setji mann yfir lýðinn,17sem gangi út fyrir þeim og gangi inn fyrir þeim, sem leiði þá út og leiði þá inn, svo að söfnuður Drottins sé eigi eins og hjörð, sem engan hirði hefir.18Þá sagði Drottinn við Móse: Tak þú Jósúa Núnsson, mann sem andi er í, og legg hönd þína yfir hann.19Leið hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn og skipa hann í embætti í augsýn þeirra.20Og þú skalt leggja yfir hann af tign þinni, svo að allur söfnuður Ísraelsmanna hlýði honum.21Og hann skal ganga fyrir Eleasar prest, en Eleasar leita úrskurðar með úrím fyrir hann frammi fyrir Drottni. Að hans boði skulu þeir ganga út, og að hans boði skulu þeir ganga inn, hann og allir Ísraelsmenn með honum og allur söfnuðurinn.22Og Móse gjörði eins og Drottinn hafði boðið honum. Tók hann Jósúa og leiddi hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn,23lagði því næst hendur sínar yfir hann og skipaði hann í embætti, eins og Drottinn hafði sagt fyrir Móse.

27.1-11 Dætur Selofhaðs 4Mós 26.33; 36.1-12; Jós 17.3-6
27.3 Í eyðimörkinni – söfnuður Kóra 4Mós 16.35
27.5 Fyrir Drottin 4Mós 9.8+
27.12-14 Fyrirheitna landið 5Mós 3.27; 32.48-52; 34.1-4
27.14 Meríba 4Mós 20.1-13
27.16 Guð sem gæir hold lífi 4Mós 16.22+
27.17 Hjörð án hirðis Matt 9.36+
27.18 Jósúa 4Mós 13.8,16; 2Mós 24.13; 5Mós 3.28; 31.1-8; Jós 1.1-2