1En á sjöunda ári herti Jójada upp hugann og tók hundraðshöfðingjana Asarja Jeróhamsson, Ísmael Jóhanansson, Asarja Óbeðsson, Maaseja Adajason og Elísafat Síkríson sér að bandamönnum.2Fóru þeir um í Júda og stefndu saman levítunum úr öllum Júdaborgum, og ætthöfðingjum Ísraels, og komu þeir til Jerúsalem.3Og allur söfnuðurinn gjörði sáttmála við konung í musteri Guðs. Og hann mælti til þeirra: Sjá, konungsson skal vera konungur, svo sem Drottinn hefir heitið um niðja Davíðs.4Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, prestanna og levítanna, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð vera hliðverðir.5Þriðjungur skal vera í konungshöllinni og þriðjungur í Jesód-hliði, en almúgi skal vera í forgörðum musteris Drottins.6En í musteri Drottins má enginn stíga fæti nema prestarnir og levítar þeir, er þjónustu gegna, þeir mega inn ganga, því að þeir eru helgaðir. En allur annar lýður skal gæta fyrirmæla Drottins.7Og levítarnir skulu fylkja sér um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast inn í musterið, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann kemur heim og þá er hann fer út.8Levítarnir og allir Júdamenn fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði um boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn, því að Jójada prestur hafði eigi látið flokkana burt fara.9Og Jójada prestur fékk hundraðshöfðingjunum spjótin, buklarana og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Guðs.10Og hann fylkti öllum lýðnum hver maður hafði skotvopn í hendi allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið musterisins, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu.11Þá leiddu menn konungsson fram og settu á hann kórónuna, fengu honum lögin og tóku hann til konungs, en Jójada og synir hans smurðu hann og hrópuðu: Konungurinn lifi!12En er Atalía heyrði ópið í lýðnum og varðliðsmönnunum, og hversu þeir fögnuðu konungi, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins.13Sá hún þá konung standa við súlu sína við innganginn, og höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi, og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana, og söngvarana með hljóðfærunum, er gáfu merki til fagnaðarópsins. Þá reif Atalía klæði sín og mælti: Samsæri, samsæri!14En Jójada prestur lét hundraðshöfðingjana, fyrirliða hersins, ganga fram og mælti til þeirra: Leiðið hana út milli raðanna, og hver sem fer á eftir henni skal drepinn með sverði. Því að prestur hafði sagt: Drepið hana eigi í musteri Drottins.15Síðan lögðu menn hendur á hana, og er hún var komin þangað, er leið liggur inn um hrossahliðið að konungshöllinni, þá drápu þeir hana þar.16Jójada gjörði sáttmála milli sín og alls lýðsins og konungs, að þeir skyldu vera lýður Drottins.17Síðan fór allur lýðurinn inn í musteri Baals og reif það niður. Ölturu hans og líkneskjur brutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum.18Síðan setti Jójada varðflokka við musteri Drottins, undir forustu levítaprestanna, er Davíð hafði skipað í flokka til þjónustu við musteri Drottins, til þess að bera fram brennifórnir Drottins, eftir því sem ritað er í Móselögmáli, með fögnuði og söng, samkvæmt fyrirmælum Davíðs.19Þá setti hann hliðverði við hliðin á musteri Drottins, til þess að enginn skyldi inn komast, er á einhvern hátt væri óhreinn.20Síðan tók hann hundraðshöfðingjana, göfugmennin og yfirmenn lýðsins, svo og landslýðinn allan, og fór með konung ofan frá musteri Drottins. Og er þeir voru komnir inn í konungshöllina um efra hliðið, þá settu þeir konung í konungshásætið.21Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði.

23.1-21 sbr 2Kon 11.4-20