1Á tólfta árinu, fyrsta dag hins tólfta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:2Mannsson, hef upp harmljóð yfir Faraó, Egyptalandskonungi, og seg við hann: Þú ungljón meðal þjóðanna, það er úti um þig! Og þó varst þú eins og krókódíll í sjónum, gusaðir með nösum þínum, gruggaðir upp vatnið með fótum þínum og rótaðir upp bylgjum þess.3Svo segir Drottinn Guð: Ég vil breiða net mitt yfir þig í söfnuði margra þjóða, til þess að þeir dragi þig upp í neti mínu.4Og ég skal varpa þér upp á land, fleygja þér út á bersvæði, og ég skal láta alla fugla himinsins sitja á þér og seðja dýr allrar jarðarinnar á þér.5Og ég skal færa hold þitt út á fjöllin og fylla dalina hræi þínu.6Og ég skal vökva landið með útrennsli þínu, af blóði þínu á fjöllunum, og árfarvegirnir skulu verða fullir af þér.7Þegar þú slokknar út, skal ég byrgja himininn og myrkva stjörnur hans. Sólina skal ég hylja í skýjum, og tunglið skal ekki láta ljós sitt skína.8Öll ljós á himninum skal ég láta verða myrk þín vegna og færa dimmu yfir land þitt, segir Drottinn Guð.9Og ég mun hrella hjörtu margra þjóða, er ég leiði hertekna menn þína út á meðal þjóðanna, til landa, sem þú þekkir ekki.10Og ég mun gjöra margar þjóðir felmtsfullar út af þér, og hryllingur mun fara um konunga þeirra þín vegna, þegar ég sveifla sverði mínu frammi fyrir þeim, og þeir skulu skjálfa án afláts af hræðslu um líf sitt, daginn sem þú fellur.11Svo segir Drottinn Guð: Sverð Babelkonungs skal koma yfir þig.12Ég skal láta glæsilið þitt falla fyrir kappa sverðum. Það eru allt saman hinar grimmustu þjóðir. Þeir skulu eyða skrauti Egyptalands, og allt viðhafnarprjál þess skal að engu gjört.13Og ég skal gjöreyða öllum skepnum þess og hrífa þær burt frá hinum miklu vötnum. Enginn mannsfótur skal framar grugga þau, né heldur skulu klaufir nokkurrar skepnu grugga þau.14Þá skal ég láta vötn þeirra setjast og leiða ár þeirra burt eins og olíu, segir Drottinn Guð15þegar ég gjöri Egyptaland að auðn og það er eytt orðið og svipt gnægtum sínum, er ég lýst alla þá, sem í því búa, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.16Þetta eru harmljóð og skulu menn syngja þau. Dætur þjóðanna skulu syngja þau, þær skulu syngja þau yfir Egyptalandi og yfir öllu glæsiliði þess, segir Drottinn Guð!17Á tólfta árinu, hinn fimmtánda dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:18Mannsson, kveina þú og dætur þjóðanna yfir glæsiliði Egyptalands. Tignarmenn munu sökkva niður í undirheima til þeirra, sem niður eru stignir í gröfina.19Af hverjum ber þú að yndisleik? Stíg ofan og leggst til hvíldar meðal hinna óumskornu.20Þeir munu falla meðal vopnbitinna manna. Egyptaland er sverðinu ofurselt, menn hrífa það burt og allt þess skraut.21Þá munu hinar hraustu hetjur hrópa til Faraós í Helju, til hans og liðveislumanna hans: Niður stignir eru hinir vopnbitnu.22Þarna er Assýría og allur liðsafnaður hennar, og eru grafir þeirra umhverfis, allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði,23grafir þeirra eru innst inni í grafhellinum. Og sveit hennar er umhverfis gröf hennar, allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna.24Þarna er Elam, og allt glæsilið hans liggur umhverfis gröf hans. Þeir eru allir saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, er farið hafa óumskornir ofan í undirheima og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina.25Mitt á meðal veginna manna bjuggu þeir honum hvílurúm, ásamt öllu glæsiliði hans, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, er lagðir hafa verið sverði, því að eitt sinn stóð ógn af þeim á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. Meðal veginna manna voru þeir lagðir.26Þarna er Mesek, Túbal og allur mannfjöldi þeirra, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, sverði lagðir, er eitt sinn létu ógn af sér standa á landi lifandi manna.27Þeir liggja ekki hjá hetjunum, þeim er féllu í fyrndinni, þeim er fóru til Heljar í hervopnum sínum, hverra sverð voru lögð undir höfuð þeirra og skildir þeirra lágu ofan á beinum þeirra, því að ótti stóð af hetjunum á landi lifandi manna.28Þú skalt og sundur molaður verða meðal óumskorinna og liggja hjá sverðbitnum mönnum.29Þar er Edóm, konungar hans og allir höfðingjar, sem þrátt fyrir hreysti sína voru lagðir hjá vopnbitnum mönnum. Þeir liggja hjá óumskornum mönnum og hjá þeim, sem niður eru stignir í gröfina.30Þar eru stórhöfðingjar norðursins allir saman og allir Sídoningar, er niður stigu helsærðir. Þrátt fyrir óttann, sem stóð af hreysti þeirra, eru þeir orðnir til skammar. Óumskornir liggja þeir hjá vopnbitnum mönnum og bera vanvirðu sína með þeim, er niður stignir eru í gröfina.31Faraó mun sjá þá og huggast yfir öllu glæsiliði sínu. Vopnbitinn er Faraó og allur hans her, segir Drottinn Guð.32Hann lét eitt sinn standa ógn af sér á landi lifandi manna, þess vegna skal hann lagður verða meðal óumskorinna, hjá vopnbitnum mönnum, Faraó og allt hans glæsilið, segir Drottinn Guð.

32.2 Krókódíll Esk 29.3-5; Job 40.25-41.25
32.3 Net Esk 12.13+
32.7 Myrkva … Jl 2.10; Am 8.9; Matt 24.29
32.11 Sverð konungsins í Babýlon Esk 21.8+ ; 30.24+
32.18 Til þeirra sem grafnir eru Esk 31.16-18; Jes 14.9-15
32.20 Sverðið Esk 21.8+
32.26 Mesek, Túbal Esk 27.13+