1Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi,2en sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna.3Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út.4Þegar hann hefur látið út alla sauði sína, fer hann á undan þeim, og þeir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans.5En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.6Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En þeir skildu ekki hvað það þýddi, sem hann var að tala við þá.7Því sagði Jesús aftur: Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna.8Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki.9Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.10Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.11Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.12Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.13Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.14Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,15eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.16Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.17Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.18Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum.19Aftur varð ágreiningur með Gyðingum út af þessum orðum.20Margir þeirra sögðu: Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?21Aðrir sögðu: Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda. Mundi illur andi geta opnað augu blindra?22Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur.23Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum.24Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum.25Jesús svaraði þeim: Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig,26en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna.27Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér.28Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni.29Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins.30Ég og faðirinn erum eitt.31Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann.32Jesús mælti við þá: Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra verka viljið þér grýta mig?33Gyðingar svöruðu honum: Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk, heldur fyrir guðlast, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði.34Jesús svaraði þeim: Er ekki skrifað í lögmáli yðar: Ég hef sagt: Þér eruð guðir?35Ef það nefnir þá guði, sem Guðs orð kom til, og ritningin verður ekki felld úr gildi,36segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: Ég er sonur Guðs?37Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki,38en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum.39Nú reyndu þeir aftur að grípa hann, en hann gekk úr greipum þeirra.40Hann fór aftur burt yfir um Jórdan, þangað sem Jóhannes hafði fyrrum verið að skíra, og var þar um kyrrt.41Margir komu til hans. Þeir sögðu: Víst gjörði Jóhannes ekkert tákn, en allt er það satt, sem hann sagði um þennan mann.42Og þarna tóku margir trú á hann.

10.4 Sauðirnir og raust hirðisins Jóh 10.27
10.6 Líking Jóh 16.25
10.8 Komu á undan Jer 23.1-2; Esk 34.2-3
10.9 Dyrnar 1Mós 28.17; Slm 118.20; Matt 7.13-14; 25.10; Lúk 11.52; sbr Jóh 14.6 – frelsast Jóh 3.17
10.11 Hirðir 1) Guð Slm 23.1; Jes 40.11; Jer 31.9; Esk 34.15 2) Messías Slm 78.70-72; Esk 37.24 3) leiðtogar Jer 2.8; 10.21; 23.1-3; Esk 34 4) Mrk 6.34; 14.27; Matt 9.36; 18.12-14; 25.32; 26.31; Lúk 15.3-7 5) Heb 13.20; Opb 7.17 – leggja í sölurnar líf sitt Mrk 10.45; Jóh 6.51; 10.15; 11.51-52; 15.13; 18.14; 1Jóh 3.16; sbr Róm 5.8
10.12 Úlfur Post 20.29
10.14 Jesús þekkir sína Jóh 10.27; 2Tím 2.19
10.15 Faðirinn og sonurinn Matt 11.27
10.16 Aðra sauði að leiða Jes 56.8; Jóh 11.52; 1Pét 2.25; sbr Jóh 4.35-38; 17.20; Gal 3.23; Kól 3.11 – einn hirðir Esk 34.23; 37.24
10.17 Leggja lífið í sölurnar, fá það aftur Fil 2.8-9
10.18 Skipun frá föðurnum Jóh 14.31; 15.10
10.19 Ágreiningur Jóh 7.43+
10.20 Hefur illan anda Mrk 3.22+
10.23 Súlnagöng Salómons Post 3.11; 5.12
10.24 Segðu okkur það Lúk 22.67; Jóh 2.18; 8.25
10.25 Verkin … Jóh 5.36+
10.26 Þið trúið ekki Jóh 6.64; 8.45
10.27 Heyra Jóh 8.47; 10.3
10.28 Gefa eilíft líf Jóh 17.2 – aldrei að eilífu glatast Jóh 3.16 – enginn skal slíta þá … Jóh 6.39; 17.12; 18.9
10.29 Enginn getur … Jes 43.13
10.30 Faðir og sonur eitt Jóh 5.17-19; 17.11,21
10.31 Grýta Jóh 8.59+
10.33 Guðlast Matt 9.3+ ; Jóh 5.18
10.34 Lögmálið (Ritningin) Jóh 7.49; 12.34; 15.25 – ég hef sagt … Slm 82.6
10.35 Ekki felld úr gildi Matt 5.18; Lúk 16.17
10.36 Senda og helga Jer 1.5; Sír 49.7; Jóh 6.69; 17.17-19 – sonur Guðs Jóh 5.17-20; 10.30,38
10.38 Eining föður og sonar Jóh 14.10-11; 17.21
10.39 Reyndu að grípa hann Jóh 7.30,44; 8.20 – gekk úr greipum þeirra Lúk 4.30
10.40 Yfir Jórdan Jóh 1.28
10.41 Vitnisburður Jóhannesar Jóh 1.29,34; 3.28; 5.33-36
10.42 Margir trúðu Jóh 7.31+