1En til mín komu nokkrir af öldungum Ísraels og settust niður frammi fyrir mér.2Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:3Mannsson, þessir menn hafa skipað skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og sett ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig. Ætti ég þá að láta þá ganga til frétta við mig?4Fyrir því tala þú til þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Hver sá af Ísraelsmönnum, sem skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa, þrátt fyrir hans mörgu skurðgoð,5til þess að taka um hjartað í Ísraelsmönnum, er gjörst hafa mér ókunnugir fyrir öll skurðgoð sín.6Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Snúið við og snúið yður frá skurðgoðum yðar og snúið augliti yðar burt frá öllum svívirðingum yðar.7Því að sérhver sá af Ísraelsmönnum og af útlendingum þeim, er dveljast meðal Ísraelsmanna, er gjörist mér fráhverfur og skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns til þess að láta hann spyrja mig fyrir sig, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa.8Ég vil snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gjöra hann að tákni og orðtaki og uppræta hann úr þjóð minni, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.9En láti spámaðurinn tæla sig og flytji hann spámæli, þá hefi ég, Drottinn, tælt þann spámann, og ég mun rétta út hönd mína móti honum og afmá hann úr þjóð minni Ísrael.10Og þeir skulu báðir bera sekt sína: Þeir skulu vera jafnsekir hvor um sig, sá er til frétta gengur og spámaðurinn,11til þess að Ísraelsmenn villist ekki framar frá mér og saurgi sig ekki framar á alls konar glæpum, heldur skulu þeir vera mín þjóð, og ég skal vera þeirra Guð segir Drottinn Guð.12Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:13Mannsson, ef land syndgar móti mér, með því að bregða trúnaði, og ég rétti út hönd mína gegn því og brýt sundur staf brauðsins fyrir því og sendi hungur í það og eyði þar mönnum og fénaði,14og þótt í því væru þessir þrír menn: Nói, Daníel og Job, þá mundu þeir þó aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína segir Drottinn Guð.15Ef ég léti óargadýr fara yfir landið og þau eyddu það að mönnum, svo að það yrði auðn, sem enginn færi um vegna dýranna,16og þessir þrír menn væru í því, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skyldu þeir hvorki fá bjargað sonum né dætrum. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér, en landið skyldi verða auðn.17Eða ef ég léti sverð geisa yfir þetta land og segði: Sverðið skal fara yfir landið! og eyddi í því mönnum og skepnum,18og þessir þrír menn væru í því, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, hvorki mundu þeir fá bjargað sonum né dætrum, heldur mundu þeir aðeins fá bjargað sjálfum sér.19Eða ef ég sendi drepsótt inn í þetta land og jysi yfir það blóðugri heift minni, til þess að eyða í því mönnum og skepnum,20og Nói, Daníel og Job væru í því, svo sannarlega sem Drottinn Guð lifir, skyldu þeir hvorki fá bjargað syni né dóttur. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína.21Þó segir Drottinn Guð svo: Jafnvel þótt ég sendi fjóra mína vondu refsidóma, sverð, hungur, óargadýr og drepsótt, yfir Jerúsalem til þess að eyða í henni mönnum og skepnum,22þá skal þó hópur eftir verða, sem af kemst, þeir er fara út með sonu og dætur. Þeir munu koma út til yðar, og þér munuð sjá breytni þeirra og gjörðir þeirra og huggast yfir ógæfu þeirri, er ég hefi látið koma yfir Jerúsalem, yfir öllu því, er ég hefi látið koma yfir hana.23Og þeir munu hugga yður, er þér sjáið breytni þeirra og gjörðir þeirra, og þér munuð sjá, að ég hefi ekkert gjört án orsaka af öllu því, er ég hefi í henni gjört segir Drottinn Guð.

14.3 Skurðgoð, óumskorið hjarta Esk 44.7; 3Mós 26.41; Jer 9.25 – hart, þverúðarfullt Esk 2.4; 3.7; Slm 95.8; Job 36.13 – steinhjarta Esk 11.19; 36.26 – ofmetnaður, hroki Esk 31.10; Okv 16.5 – tvískiptur, lævíslegur Slm 12.3; Okv 11.20; 17.20; sbr Esk 11.19+
14.7 Réttur aðkomumanns Esk 47.22; 3Mós 19.33+
14.9 Spámaður Esk 13.7+
14.13 Svipta birgðum brauðsins Esk 4.16
14.14 Ábyrgð einstaklingsins Esk 18.20+