1Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:2Mannsson, snú þér gegn Góg í Magóglandi, höfðingja yfir Rós, Mesek og Túbal, spá gegn honum3og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal,4og ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út, ásamt öllu herliði þínu, hestum og riddurum, öllum með alvæpni, mikinn manngrúa, með skjöld og törgu, alla með sverð í höndum.5Persar, Blálendingar og Pútmenn eru í för með þeim, allir með törgu og hjálm,6Gómer og allir herflokkar hans, Tógarma-lýður, hin ysta norðurþjóð, og allir herflokkar hans margar þjóðir eru í för með þér.7Bú þig út og ver viðbúinn, þú og allar hersveitirnar, sem safnast hafa til þín, og ver þú yfirmaður þeirra.8Eftir langan tíma munt þú útboðsskipun hljóta. Á síðustu árunum munt þú koma inn í það land, sem aftur er unnið undan sverðinu, til þjóðar, sem safnað hefir verið saman frá mörgum þjóðum á Ísraels fjöll, sem stöðuglega hafa í eyði legið, já, frá þjóðunum var hún flutt, og nú búa allir öruggir.9Þá munt þú brjótast fram sem þrumuveður, koma sem óveðursský til þess að hylja landið, þú og allir herflokkar þínir og margar þjóðir með þér.10Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu illar hugsanir koma upp í hjarta þínu og þú munt hafa illar fyrirætlanir með höndum11og segja: Ég vil fara í móti bændabýlalandi, ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið,12til þess að fara með rán og rifs, til þess að leggja hönd þína á borgarrústir, sem aftur eru byggðar orðnar, og á þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og fjármuna, á menn, sem búa á nafla jarðarinnar.13Seba og Dedan og verslunarmenn frá Tarsis og kaupmenn hennar segja við þig: Kemur þú til þess að ræna? Hefir þú dregið saman liðsveitir þínar til þess að rupla, til þess að hafa á burt silfur og gull, flytja burt búfé og fjármuni, til þess að afla mikils herfangs?14Fyrir því spá þú, mannsson, og seg við Góg: Svo segir Drottinn Guð: Munt þú ekki á þeim degi, er lýður minn Ísrael býr óhultur, leggja af stað15og koma frá stöðvum þínum, lengst úr norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi hestum, mikill liðssafnaður, fjölmennur her,16og fara í móti lýð mínum Ísrael eins og óveðursský til þess að hylja landið? Á hinum síðustu dögum mun ég leiða þig móti landi mínu, til þess að þjóðirnar læri að þekkja mig, þegar ég auglýsi heilagleik minn á þér, Góg, fyrir augum þeirra.17Svo segir Drottinn Guð: Ert þú sá, er ég talaði um í fyrri daga fyrir munn þjóna minna, spámanna Ísraels, er spáðu í þá daga árum saman, að ég mundi leiða þig móti þeim?18En þann dag, daginn sem Góg fer móti Ísraelslandi, segir Drottinn Guð mun reiðin blossa í nösum mér.19Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég það: Vissulega, á þeim degi skal mikill jarðskjálfti verða á Ísraelslandi.20Þá skulu fiskar sjávarins skjálfa fyrir mér og fuglar himinsins, dýr merkurinnar og öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, og allir menn, sem eru á jörðinni, og fjöllin skulu kollvarpast og hamrarnir hrynja og hver múrveggur til jarðar falla.21Og á öllum fjöllum mínum vil ég kalla á sverðin í móti honum segir Drottinn Guð. Eins sverð skal vera í móti öðrum.22Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru.23Og ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.

38.8 Búa óhult Esk 28.26+
38.12 Nafli jarðar, háhæðin Dóm 9.37
38.16 Þekkja Drottin Esk 5.13+
38.19 Ákefð Esk 5.13 – jarðskjálfti Am 8.8; Opb 11.13
38.21 Sverð Esk 21.8+
38.22 Eldur og brennisteinn 1Mós 19.24