1Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði.2Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.3Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.4Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð.5Þegar Drottinn Guð gjörði jörðina og himininn, var enn alls enginn runnur merkurinnar til á jörðinni, og engar jurtir spruttu enn á mörkinni, því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina og engir menn voru til þess að yrkja hana,6en þoku lagði upp af jörðinni, og vökvaði hún allt yfirborð jarðarinnar.7Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.8Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað.9Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.10Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám.11„Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst.“12Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar.13Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.14Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.15Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.16Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild,17en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.18Drottinn Guð sagði: Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.19Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra.20Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi.21Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi.22Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.23Þá sagði maðurinn: Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.24Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.25Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.

2.2 Sjöundi dagur 2Mós 20.8-11; 31.13; Heb 4.4,10
2.4 Sköpun himins og jarðar 1Mós 1.1+
2.7 Moldu jarðar, lífsandi Slm 104.29-30; Job 33.4; 34.14-15; Préd 3.20; 12.7, 1Kor 15.45-49
2.8 Eden 1Mós 3.23-24; 4.16; Jes 51.3; Esk 28.13; 31.9,16,18; 36.35; Jl 2.3
2.9 Lífsins tré Okv 3.18; Opb 2.7; 22.2,14 – gott og illt 1Mós 3.5,22; 5Mós 1.39; 2Sam 14.17; 1Kon 3.9; Jes 7.15-16
2.11 Píson Sír 2.25
2.13 Gíhon Sír 24.27
2.17 Deyja Róm 6.23; sbr SSal 1.12-15
2.18 Meðhjálp Okv 18.22; Sír 36.24
2.21 Djúpan svefn 1Mós 15.12; 1Sam 26.12; Jes 29.10; Job 4.13; 33.15
2.22 Kona mynduð 1Kor 11.8-9
2.23 Mitt bein, mitt hold 1Mós 29.14; Dóm 9.2; 2Sam 5.1; 19.13-14; sbr 1Mós 37.27
2.24 Eitt hold Mal 2.14-15; Mt 19.5+ – maðurinn og konan Okv 5.15-20; 31.10-31; Préd 9.9