1Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.2Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.3Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.4Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.5Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: Sjá, ég gjöri alla hluti nýja, og hann segir: Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.6Og hann sagði við mig: Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.7Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.8En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði.9Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins.10Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði.11Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær.12Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf.13Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið.14Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins.15Og sá, sem við mig talaði, hélt á kvarða, gullstaf, til að mæla borgina og hlið hennar og múr hennar.16Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með stafnum, tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð eru jafnar.17Og hann mældi múr hennar, hundrað fjörutíu og fjórar álnir, eftir kvarða manns, sem er einnig mál engils.18Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli sem skært gler væri.19Undirstöðusteinar borgarmúrsins voru skreyttir alls konar gimsteinum. Fyrsti undirstöðusteinninn var jaspis, annar safír, þriðji kalsedón, fjórði smaragð,20fimmti sardónyx, sjötti sardis, sjöundi krýsólít, áttundi beryll, níundi tópas, tíundi krýsópras, ellefti hýasint, tólfti ametýst.21Og hliðin tólf voru tólf perlur, og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler.22Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið.23Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar.24Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína.25Og hliðum hennar verður aldrei lokað um daga því að nótt verður þar ekki.26Og menn munu færa henni dýrð og vegsemd þjóðanna.27Og alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi, engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins.

21.1 Nýr himinn og ný jörð Jes 65.17; 6.22; 2Pét 3.13; sbr Matt 19.28; 2Kor 5.17; Kól 3.10
21.2 Ný Jerúsalem Jes 60; 62; 65.18-25; Gal 4.26; Heb 11.10,16; Opb 3.12 – búin sem brúður Jes 61.10; Opb 19.7+
21.3 Tjaldbúð Guðs 3Mós 26.11-12; Esk 37.27; 2Kor 6.16; Opb 7.15+ – Guð meðal mannanna Jes 7.14; 8.8; Sak 2.14; Matt 1.23
21.4 Þerrar hvert tár Opb 7.17+
21.5 Gjeri alla hluti nýja 2Kor 5.17
21.6 Alfa og Ómega Opb 1.8 – ég mun gefa Jes 55.1 – af lind lífsins vatns Jóh 4.10,14; 7.37-38; Opb 7.17+ ; 22.17
21.7 Mitt barn 2Sam 7.14; Slm 2.7; 89.27-28; Heb 1.5
21.8 Logandi díki Opb 19.20+ – hinn annar dauði Opb 2.11+
21.9 Sjö englar Opb 15.1+ – eiginkona lambsins Opb 19.7+
21.11 Dýrð Guðs Jes 60.1-2; Opb 15.8+
21.12-13 Hin nýja Jerúsalem Esk 48.30-35
21.14 Tólf undirstöðusteinar Ef 2.20
21.15 Mæla Opb 11.1+
21.16-17 Stærð borgarinnar Esk 48.16-17
21.18-21 Efni borgarmúrsins Jes 54.11-12
21.22 Drottinn er musteri hennar Jóh 2.19-21; Opb 21.3; 22.3
21.23 Þarf ekki sólar við Jes 60.19-20; Opb 22.5
21.24 Þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar Jes 60.3-5
21.25 Opin hlið Jes 60.11 – aldrei koma nótt Sak 14.7; Opb 22.5
21.26 Vegsemd þjóðanna Slm 72.10-11
21.27 Ekkert óhreint Jes 35.8; 52.1; Sak 13.1-2; 1Kor 6.9-10; 2Pét 3.13; Opb 22.15 – lífsins bók Opb 3.5+