1Drottinn talaði við Móse og sagði:2Tala þú við Aron og seg við hann: Þá er þú setur upp lampana, skulu lamparnir sjö varpa ljósi sínu fram undan ljósastikunni.3Og Aron gjörði svo. Hann setti lampana upp framan á ljósastikuna, eins og Drottinn hafði boðið Móse.4Þetta var smíðið á ljósastikunni: Hún var gjör af gulli með drifnu smíði, bæði stétt hennar og blóm var drifið smíði. Hafði hann gjört ljósastikuna eftir fyrirmynd þeirri, er Drottinn hafði sýnt Móse.5Drottinn talaði við Móse og sagði:6Skil þú levítana úr Ísraelsmönnum og hreinsa þá.7Og þetta skalt þú við þá gjöra til þess að hreinsa þá: Stökk þú á þá syndhreinsunarvatni, og þeir skulu láta rakhníf ganga yfir allan líkama sinn og þvo klæði sín og hreinsa sig.8Og þeir skulu taka ungneyti og matfórn, er því fylgir, fínt mjöl olíublandað, og annað ungneyti skalt þú taka í syndafórn.9Síðan skalt þú leiða levítana fram fyrir samfundatjaldið og safna saman öllum söfnuði Ísraelsmanna.10Og þú skalt leiða levítana fram fyrir Drottin, og Ísraelsmenn skulu leggja hendur sínar yfir þá.11Og Aron skal helga levítana sem fórn frammi fyrir Drottni af hendi Ísraelsmanna, og skulu þeir takast á hendur að gegna þjónustu Drottins.12En levítarnir skulu leggja hendur sínar á höfuð nautanna. Öðru skal fórna í syndafórn og hinu í brennifórn Drottni til handa til þess að friðþægja fyrir levítana.13Og þú skalt leiða þá fram fyrir Aron og fram fyrir sonu hans og helga þá sem fórn Drottni til handa.14Og þú skalt greina þá frá Ísraelsmönnum, svo að þeir heyri mér.15Því næst skulu levítarnir ganga inn til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið, og þú skalt hreinsa þá og helga þá sem fórn,16því að þeir eru gefnir mér til fullkominnar eignar af Ísraelsmönnum. Í stað alls þess er opnar móðurlíf, í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna hefi ég tekið þá mér til eignar,17því að ég á alla frumburði meðal Ísraelsmanna, bæði menn og skepnur. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér þá.18Og ég tók levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna.19Og ég gaf þá Aroni og sonum hans til eignar af Ísraelsmönnum, til þess að þeir gegni þjónustu fyrir Ísraelsmenn í samfundatjaldinu og til þess að þeir friðþægi fyrir Ísraelsmenn, svo að eigi komi plága yfir Ísraelsmenn, þá er Ísraelsmenn koma nærri helgidóminum.20Móse og Aron og allur söfnuður Ísraelsmanna gjörði svo við levítana. Gjörðu Ísraelsmenn að öllu leyti svo við þá sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.21Levítarnir syndhreinsuðu sig og þvoðu klæði sín, og Aron helgaði þá sem fórn frammi fyrir Drottni, og Aron friðþægði fyrir þá til þess að hreinsa þá.22Gengu levítarnir því næst inn til þess að gegna þjónustu sinni í samfundatjaldinu fyrir augliti Arons og fyrir augliti sona hans. Gjörðu þeir svo við levítana sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.23Drottinn talaði við Móse og sagði:24Þetta gildir um levítana: Frá því þeir eru tuttugu og fimm ára og þaðan af eldri skulu þeir koma til þess að gegna herþjónustu með þjónustu í samfundatjaldinu.25En frá því þeir eru fimmtugir skulu þeir láta af þjónustunni og eigi þjóna framar.26Þeir mega veita bræðrum sínum aðstoð í samfundatjaldinu og annast það, sem annast ber, en þjónustu skulu þeir eigi gegna. Þannig skalt þú fara með levítana, að því er kemur til sýslunar þeirra.

8.2 Ljósastikan 2Mós 27.20-21; 37.17-24; 3Mós 24.1-4; 1Sam 3.3
8.6 Heinsa þá 3Mós 8.6
8.7 Rakstur og þvottur sbr 3Mós 14.8-9
8.11 Þjónusta við Drottin 4Mós 3.6-8
8.13 Fyrir Aron 4Mós 3.6
8.16 Til handa 4Mós 3.9; 18.6; Esr 2.43; 8.20 – í stað … 4Mós 3.12
8.17 Allir frumburðir 4Mós 3.13; 2Mós 13.2
8.18 Levítarnir 4Mós 3.41+
8.19 Nálgast helgidóminn 4Mós 17.28; 18.22
8.24 Tuttugu og fimm ára sbr 4Mós 4.3+