1Vei landi vængjaþytsins, hinumegin Blálands fljóta,2er gjörir út sendimenn yfir hafið og í reyrbátum yfir vötnin. Farið, þér hröðu sendiboðar, til hinna hávöxnu og gljáandi þjóðar, til lýðsins, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, til hinnar afar sterku þjóðar, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna:3Allir þér, sem heimskringluna byggið og á jörðu búið, skuluð sjá, þegar merkið er reist á fjöllunum, og hlusta, þegar blásið er í lúðurinn.4Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Ég vil halda kyrru fyrir og horfa á frá bústað mínum, meðan loftið er glóandi í sólskininu, meðan döggin er mikil í breiskjuhita kornskurðartímans.5Áður en uppskeran kemur, þegar blómgunin er á enda og blómið verður að fullvöxnu vínberi, heggur hann vínviðargreinarnar af með sniðlinum, og frjóangana stýfir hann, sníður þá af.6Allir saman skulu þeir gefnir verða ránfuglum fjallanna og dýrum jarðarinnar. Ránfuglarnir skulu sitja á þeim sumarlangt og öll dýr jarðarinnar halda sig þar þegar vetrar.7Á þeim tíma skulu gjafir verða færðar Drottni allsherjar frá hinum hávaxna og gljáandi lýð, frá lýðnum, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, frá hinni afar sterku þjóð, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna, til þess staðar, þar sem nafn Drottins hersveitanna er, til Síonfjalls.

18.2 Gegn bandalagi við Egyptaland Jes 20.5; 30.1-7; 31.1-3; 36.4-6
18.3 Merkið Jes 5.26+ – hafurshornið þeytt Jós 6.5; Dóm 3.27; 6.34; 7.18; 1Sam 13.3; 2Sam 18.16; 20.1,22; Jer 42.14; Hós 5.8; Am 2.2
18.4 Bústaður Drottins Jes 57.15; 1Kon 8.39; 2Kro 6.30; Slm 33.14
18.7 Gjafir Slm 68.30; 76.12 – afturhvarf þjóðanna Jes 19.21; Mík 4.1+ – Kúss Jes 45.14; Sef 3.10; Slm 87.4 – nafn Drottins 5Mós 12.5; 26.2