1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:2Heyrið orð þessa sáttmála. Tala þú til Júdamanna og Jerúsalembúa3og seg við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Bölvaður sé sá maður, sem ekki hlýðir á orð þessa sáttmála,4er ég bauð feðrum yðar að halda, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum og sagði: Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð,5til þess að ég fái haldið þann eið, er ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land, sem flýtur í mjólk og hunangi, landið, sem þér eigið enn í dag. Og ég svaraði og sagði: Veri það svo, Drottinn!6Þá sagði Drottinn við mig: Boða þú öll þessi orð í Júdaborgum og á Jerúsalemstrætum og seg: Hlýðið á orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim.7Því að alvarlega hefi ég varað feður yðar við, þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi og allt fram á þennan dag, iðulega og alvarlega, og sagt: Hlýðið skipun minni!8En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur fóru hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta, og fyrir því lét ég fram á þeim koma öll orð þessa sáttmála, er ég hafði boðið þeim að halda, en þeir héldu ekki.9Þá sagði Drottinn við mig: Það er samsæri milli Júdamanna og Jerúsalembúa.10Þeir eru horfnir aftur til misgjörða forfeðra sinna, sem eigi vildu hlýða orðum mínum, og þeir elta aðra guði, til þess að þjóna þeim. Ísraels hús og Júda hús hafa rofið minn sáttmála, þann er ég gjörði við feður þeirra.11Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég leiði yfir þá ógæfu, er þeir ekki skulu fá undan komist, og er þeir þá hrópa til mín, mun ég ekki heyra þá.12En fari Júdaborgir og Jerúsalembúar og hrópi til þeirra guða, er þeir færa reykelsisfórnir, þá munu þeir vissulega heldur ekki hjálpa þeim á ógæfutíma þeirra.13Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar, og þér hafið reist eins mörg ölturu, til þess að fórna Baal á reykelsisfórnum, eins og stræti eru í Jerúsalem.14En þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, því að ég mun alls eigi heyra, þegar þeir kalla til mín á ógæfutíma þeirra.15Hvert erindi á mín ástkæra í hús mitt? Atferli hennar er lymskufullt. Munu bænahróp og heilagt fórnarkjöt nema illsku þína burt frá þér, svo að þú síðan megir fagna?16Fagurgrænt olíutré, prýtt dýrlegum ávöxtum, nefndi Drottinn þig eitt sinn, en í hvínandi ofviðri kveikir hann eld kringum það, og greinar þess brotna.17Drottinn allsherjar, sem gróðursetti þig, hefir hótað þér illu vegna illsku Ísraels húss og Júda húss, er þeir frömdu til þess að egna mig til reiði, þá er þeir færðu Baal reykelsisfórnir.18Drottinn gjörði mér það kunnugt og ég fékk að vita og sjá gjörðir þeirra.19Ég var sjálfur eins og vanið lamb, sem leitt er til slátrunar, og vissi ekki, að þeir voru að brugga ráð gegn mér: Vér skulum eyða tréð í blóma þess og uppræta hann af landi lifenda, svo að nafns hans verði ekki minnst framar!20En, Drottinn allsherjar, þú er réttlátlega dæmir og rannsakar nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt!21Fyrir því segir Drottinn svo um Anatótmenn, þá er sitja um líf þitt og segja: Þú skalt ekki spá í nafni Drottins, ella skalt þú deyja fyrir hendi vorri.22Fyrir því mælir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég mun refsa þeim. Æskumennirnir skulu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur skulu deyja af hungri.23Og leifar munu þeim engar eftir verða, því að ég leiði óhamingju yfir Anatótmenn, árið sem þeim verður refsað.

11.2 Sáttmáli 2Mós 19.5; 2Kon 23.3
11.3 Bölvaður 5Mós 27.26; Gal 3.10
11.4 Út úr Egyptalandi Jer 7.22+ – járnbræðsluofninum 5Mós 4.20 – hlýðið Jer 7.23; Jóh 10.27 – mín þjóð, yðar Guð Jer 7.23+ ; sbr 5Mós 4.20; 7.6
11.5 Eiður 5Mós 26.17; Slm 105.8-11 – flýtur í mjólk og hunangi Jer 32.22; 2Mós 3.8; 13.5; 33.3; 3Mós 20.24; 4Mós 13.27; 14.8; 16.13; 5Mós 6.3; 8.8; Jós 5.6; Esk 20.6,15
11.7 Brýna fyrir Jer 7.23-26
11.8 Hlýddu ekki Jer 7.26+
11.10 Elta framandi guði Jer 7.9+ – rofið sáttmálann Jer 31.32
11.11 Ógæfa Jer 19.3; 1Kon 14.10
11.12 Fórna falsguðum Jer 1.16+
11.13 Jafnmargir og … Jer 2.28
11.14 Ekki biðja Jer 7.16+ – Guð er reiður Jer 25.7
11.18-23 Harmtölur Jeremía Jer 12.16; 15.10,15-21; 17.14-18; 18.18-23; 20.7-18
11.18 Drottinn skýrði frá 1Kon 14.5
11.19 Eins og lamb Jes 53.7 – nafn hans ekki framar minnst Slm 109.13
11.20 Drottinn rannsakar Jer 17.10; 20:12; Slm 7.10+ ; 1Kro 28.9; Opb 2.23; sbr 1Sam 16.7; 1Kon 8.39; Slm 139.23; Róm 8.27; 1Þess 2.4 – sýndu mér hefnd þína Jer 9.8; 5Mós 32.35; Róm 12.19 – fel þér málefni mitt Jer 20.12; Slm 31.6; 37.5; 55.23; 1Pét 2.23; 4.19
11.21 Ekki starfa sem spámaður Jes 30.10; Am 2.12; 7.13
11.22 Draga til ábyrgðar Jer 5.9+
11.23 Enginn verður eftir Jer 9.9; 36.29; 42.17; 44.14 – draga til ábyrgðar Jer 8.12+