1Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.2Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.3Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.4En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.5Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.6Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.7Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.8Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, Sela9þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.10Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.11Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.12Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:13Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.14Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli.15Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.16Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.17Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?18Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.19Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.20Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. Sela21Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.22Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.23Drottinn hefir sagt: Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,24að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum.25Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.26Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.27Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.28Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.29Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss30frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.31Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!32Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.33Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, Sela34honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.35Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.36Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!

68.2 Guð rís upp 4Mós 10.35
68.3 Líkt og reykur Slm 37.20; Hós 13.3 – eins og vax Slm 22.15; 97.5; Mík 1.4
68.4 Réttlátir gleðjast Slm 32.11; 97.12; Job 22.19
68.5 Syngið fyrir Guði Slm 96.1+ ; Jer 20.13 – kemur ríðandi Slm 18.10-11; Jes 19.1
68.6 Munaðarlausir, ekkjur Slm 146.9+ ; 2Mós 22.22-23; sbr Bar 4.37
68.7 Hin einmana Slm 113.9
68.8 Guð fer út Dóm 5.4; 5Mós 33.2; Hab 3.3-6
68.9 Jörðin nötrar 2Mós 19.18; Heb 12.26 – Ísraels Guð Slm 59.6
68.12 Boða sigur Jes 40.9
68.13 Konungur hersveitanna Slm 48.5
68.14 Liggja Dóm 5.16
68.15 Snjór Job 38.22-23; sbr Dóm 5.20
68.16 Basan Am 4.1
68.17 Útvalið fjall Slm 78.68 – ætíð Esk 43.7
68.18 Vagnar Guðs 2Kon 6.17
68.19 Steigst upp Slm 47.6; Ef 4.8
68.20 Lofaður sé Drottinn Slm 28.6+
68.22 Sundurmolar Jes 63.3
68.24 Tungur hunda 2Kon 9.36
68.27 Safnist saman Slm 26.12
68.30 Konungar færa gjafir Slm 72.10; 76.12; 1Kon 10.24-25
68.31 Uxaflokkar Slm 22.13
68.32 Færa Guði gjafir Jes 18.7
68.33 Syngið Drottni lof Slm 147.7+
68.34 Kemur ríðandi Slm 18.11; 5Mós 33.26 – hin volduga raust Slm 29
68.36 Veitir þjóð sinni mat Slm 29.11