1Þá svaraði Job Drottni og sagði:2Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.3Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi? Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.4Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.5Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!6Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.7Eftir að Drottinn hafði mælt þessum orðum til Jobs, sagði Drottinn við Elífas Temaníta: Reiði mín er upptendruð gegn þér og báðum vinum þínum, því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job.8Takið yður því sjö naut og sjö hrúta og farið til þjóns míns Jobs og fórnið brennifórn fyrir yður, og Job þjónn minn skal biðja fyrir yður, því aðeins vegna hans mun ég ekki láta yður gjalda heimsku yðar, með því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job.9Þá fóru þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim. Og Drottinn lét að bæn Jobs.10„Og Drottinn sneri við högum Jobs, þá er hann bað fyrir vinum sínum; og hann gaf Job allt sem hann hafði átt, tvöfalt aftur.“11Þá komu til hans allir bræður hans og allar systur hans og allir þeir, er áður höfðu verið kunningjar hans, og neyttu máltíðar með honum í húsi hans, vottuðu honum samhryggð sína og hugguðu hann út af öllu því böli, sem Drottinn hafði látið yfir hann koma. Og þeir gáfu honum hver einn kesíta og hver einn hring af gulli.12En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur.13Hann eignaðist og sjö sonu og þrjár dætur.14Og hann nefndi eina Jemímu, aðra Kesíu og hina þriðju Keren Happúk.15Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra.16Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði.17Og Job dó gamall og saddur lífdaga.

42.2 Ekkert er þér um megn Matt 19.26+ ; Mrk 9.23; Lúk 1.37; Fil 4.13
42.3 Myrkva ráðsályktun Guðs Job 38.2 – undursamleg Job 11.6
42.5 Litið þig Job 19.27+
42.6 Ég iðrast sbr Job 40.4 – í dufti og ösku Job 2.8+
42.7 Talar rétt um Guð Job 13.7-10; 27.4+
42.8 Aðeins vegna Jobs Job 22.30; sbr Esk 14.20
42.9 Bænheyrði 1Mós 20.17; Jes 53.12; Jak 5.16
42.10 Allt tvöfalt Job 8.7; 5Mós 30.3-5; Slm 90.15
42.11 Kunningjar hans Okv 14.20; sbr Job 19.13-14 – hugguðu hann Job 2.11; 21.34; 1Mós 37.35; Matt 5.4; Jóh 11.19 – gullhringur 1Mós 24.22
42.17 Dó gamall Job 5.26; 1Mós 25.8