1Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið:2Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður.3Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili.4En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið.5Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið.6Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur.7Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið.8Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það.9Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innyflum.10Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi.11Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins.12Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn.13Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland.14Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.15Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael.16Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar.17Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli.18Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins.19Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur.20Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð.21Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu.22Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni.23Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður.24Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín.25Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið.26Og þegar börn yðar segja við yður: Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?27þá skuluð þér svara: Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum. Þá féll lýðurinn fram og tilbað.28Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.29Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins.30Þá reis Faraó upp um nóttina, hann og allir þjónar hans, og allir Egyptar. Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni.31Lét hann kalla þá Móse og Aron um nóttina og sagði: Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað.32Takið með yður bæði sauðfé yðar og nautgripi, eins og þið hafið um talað, farið því næst af stað og biðjið einnig mér blessunar.33Og Egyptar ráku hart eftir fólkinu til þess að koma þeim sem fyrst burt úr landinu, því að þeir sögðu: Vér munum allir deyja.34Fólkið tók þá deigið, sem það hafði, áður en það sýrðist, batt deigtrogin innan í klæði sín og bar þau á öxlum sér.35En Ísraelsmenn höfðu gjört eftir fyrirmælum Móse og beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði,36og hafði Drottinn látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta.37Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna.38Þar að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð, svo og stórar hjarðir sauða og nauta.39Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestis.40Ísraelsmenn höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár.41Og að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir Drottins út af Egyptalandi.42Þetta er vökunótt Drottins, með því að hann leiddi þá út af Egyptalandi. Þessa sömu nótt halda allir Ísraelsmenn helga sem vökunótt Drottins frá kyni til kyns.43Drottinn sagði við þá Móse og Aron: Þetta eru ákvæðin um páskalambið: Enginn útlendur maður má af því eta.44Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann.45Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því.46Menn skulu eta það í einu húsi. Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu. Ekkert bein í því megið þér brjóta.47Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra.48Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda Drottni páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta.49Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa.50Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.51Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra. af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.

12.1 Páskahátíðin 3Mós 23.5-8; 4Mós 9.1-14; 28.16-25; 5Mós 16.1-8; Jós 5.10; 2Kon 23.21-23; 2Kro 30; 35.1-18; Esk 45.21-24; Matt 26 og hlst.; 1Kor 5.7; Heb 11.28
12.12 Frumburðir 2Mós 12.29+
12.15 Ósýrt brauð 2Mós 13.3-7; 23.15; 34.18; sbr 2Mós 12.1+
12.26-27 Svara 2Mós 10.2+
12.29 Frumburðir deyddir 2Mós 4.23; 11.5; 12.12; Slm 78.51; 105.36; 135.8; 136.10; SSal 18.5-19
12.36 Egyptar rændir 2Mós 3.22+
12.37 Frá Ramses til Súkkót 4Mós 33.1-5 – sex hundruð þúsund 4Mós 1.46
12.38 Sundurleitur hópur 4Mós 11.4
12.39 Enginn tími 5Mós 16.3; Jes 52.12
12.40 Búsetan í Egyptalandi 1Mós 15.13; Post 7.6; Gal 3.17
12.46 Ekki brjóta beinin 4Mós 9.12; Slm 34.21; Jóh 19.36