1„Maður er nefndur Elkana. Hann var frá Ramataím-Sófím, frá Efraímfjöllum; hann var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar Efraímíta.“2Elkana átti tvær konur. Hét önnur Hanna, en hin Peninna. Peninna átti börn, en Hanna átti engin börn.3Þessi maður fór á ári hverju úr borg sinni til þess að biðjast fyrir og til þess að færa Drottni allsherjar fórnir í Síló. En þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins.4Í hvert sinn er Elkana fórnaði, þá gaf hann Peninnu, konu sinni, og öllum sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju.5Hann gaf Hönnu ekki nema einn hlut, þótt hann elskaði hana, en Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.6Elja hennar skapraunaði henni einnig til þess að reita hana til reiði, af því að Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.7Svo gjörði Elkana ár eftir ár, í hvert skipti sem þau fóru upp til húss Drottins, og þannig skapraunaði hún henni. Hanna grét og neytti eigi matar.8Þá sagði Elkana, maður hennar, við hana: Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú eigi matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?9Og Hanna stóð upp, þá er þau höfðu etið í Síló og þá er þau höfðu drukkið. En Elí prestur sat á stól við dyrastafinn á musteri Drottins.10Hanna var sárhrygg. Hún bað til Drottins og grét mjög,11gjörði heit og mælti: Drottinn allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann Drottni alla daga ævi hans, og eigi skal rakhnífur koma á höfuð honum.12Er hún gjörði lengi bæn sína fyrir augliti Drottins, og Elí tók eftir munni hennar,13„en Hanna mæltist fyrir í hljóði; bærðust aðeins varirnar, en rödd hennar heyrðist ekki, þá hélt Elí, að hún væri drukkin.“14Þá sagði Elí við hana: Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu vímuna renna af þér!15Hanna svaraði og sagði: Nei, herra minn, ég er kona með hryggð í hjarta. Vín hefi ég ekki drukkið né áfengan drykk, en ég hefi úthellt hjarta mínu fyrir Drottni.16Ætla þú eigi, að ambátt þín sé afhrak, því að af mínum mikla harmi og trega hefi ég talað hingað til.17Elí svaraði og sagði: Far þú í friði. Ísraels Guð mun veita þér það, er þú hefir beðið hann um.18Hanna mælti: Ó að ambátt þín mætti finna náð í augum þínum! Síðan fór konan leiðar sinnar og mataðist og var eigi framar með döpru bragði.19Morguninn eftir risu þau árla og gjörðu bæn sína fyrir augliti Drottins, sneru síðan aftur og komu heim til Rama. Og Elkana kenndi Hönnu konu sinnar, og Drottinn minntist hennar.20Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, því að ég hefi beðið Drottin um hann.21Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt.22En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því.23Elkana, maður hennar, sagði við hana: Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast. Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af.24En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur.25Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí.26Og hún sagði: Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins.27Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um.28Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður. Og þau féllu þar fram fyrir Drottin.

1.2 Hanna átti engin börn 1Mós 29.31
1.3 Á hverju ári 2Mós 23.17+ – Síló Dóm 21.19-23
1.4 Sinn hlut hverju 5Mós 12.18
1.6 Skapraunaði henni 1Mós 16.4-6
1.8 Tíu synir Rut 4.15
1.11 Neyð ambáttar þinnar Lúk 1.48
1.13 Drukkin Post 2.13-15
1.21 Heitfórn 4Mós 30.14
1.24 Naut, mjöl, vín 4Mós 15.8-10