Fyrsta bók Samuelis

I.

Þar var einn maður af Ramataím Sófím af fjallbyggð Efraím, hann hét Elkana, son Jeróham, sonar Elíhú, sonar Tógú, sonar Súf sem var af Efrata. [ Hann átti tvær eiginkonur, ein hét Anna en önnur Peninna. [ En Peninna átti börn, Anna var óbyrja og átti ekkert barn. Og þessi maður fór af sinni borg í tilsettan tíma að dýrka Drottin Sebaót og færa honum fórnir í Síló. En þar voru kennimenn Drottins á þeim tíma, Ofní og Píneas, þeir voru synir Elí.

Og það skeði svo á nokkrum degi að Elkana færði fórnir þá gaf hann sinni kvinnu Peninna og öllum hennar sonum og dætrum þeirra hluti. En Aunnu gaf hann einn hlut með hryggð því hann elskaði Aunnu en Drottinn hafði byrgð hennar kvið. Og hennar elja hrelldi hana og skapraunaði henni að Drottinn hafði byrgt hennar kvið. Þetta skeði hvert ár þá hann gekk upp til Guðs húss að hún hrelldi hana svo. En Anna grét og neytti öngrar fæðu. Þá sagði Elkana hennar bóndi til hennar: „Því grætur þú, Anna, og því neytir þú ekki matar og því hryggist þitt hjarta svo mjög? Er eg þér ekki betri en tíu synir?“

Eftir það stóð Anna upp þá hún hafði etið og drukkið í Síló (en Elí kennimaður sat á stóli fyrir musterisdyrum Drottins) og hún var með beiskum hug, bað til Drottins grátandi, hét á hann og sagði: [ „Drottinn allsherjar, ef þú virðist á að líta eymd ambáttar þinnar og minnast mín og gleyma ekki þinni ambátt og viljir þú gefa þinni ambátt einn son þá skal eg gefa hann Drottni alla hans lífdaga og enginn hárhnífur skal snerta hans höfuð.“ [

Og sem hún lengdi bæn sína fyrir Drottni þá hugði Elí að hennar munni. [ Því Anna baðst fyrir í sínu hjarta en hennar varir hrærðust aðeins en ekki mátti heyra hennar orðaskil. Þá ætlaði Elí hana vera drukkna og sagði til hennar: „Hversu lengi vilt þú vera drukkin? Lát vínið renna af þér það sem með þér er.“ Anna svaraði og sagði: „Nei, minn herra, eg er ein sorgfull kvinna. Hverki hefi eg drukkið vín né áfengan drykk heldur hefi eg útausið hjarta mínu fyrir Drottni. Atla þú mig ekki, þína ambátt, að vera sem eina af dætrum Belíal. Því allt hér til hefi eg talað af mikilleik míns angurs og ekka.“

Þá svaraði Elí og sagði: „Far þú í friði. Ísraels Guð mun veita þér þá bæn sem þú hefur hann beðið.“ Hún sagði: „Lát þína ambátt finna náð fyrir þínum augum.“ Svo gekk kvinnan heim aftur sinn veg, tók fæðu til sín og var ekki síðan svo hrygg. Að morni dags risu þau Helkana upp snemma og sem þau höfðu dýrkað Drottin þá sneru þau aftur og komu heim til Ramat.

Og Elkana kenndi sína kvinnu Annam og Drottinn minntist hennar. Og eftir nokkra daga varð hún þunguð og fæddi einn son og nefndi hann Samúel, „því eg hefi“ sagði hún „með bæn fengið hann af Drottni.“ [

Og sem Elkana fór upp með öllu sínu hyski að færa Drottni fórnir venjulegar og heit sín þá var Anna eftir og sagði til síns húsbónda: „Þegar barnið er af brjósti vanið þá vil eg skila honum svo hann skal birtast fyrir Drottni og sé þar ævinlega.“ Elkana, hennar húsbóndi, sagði til hennar: „Gjör svo sem þér sýnist best fallið og far ei fyrri upp en þú hefur afvanið hann. Staðfesti Drottinn hvað hann hefur mælt.“

Svo var kvinnan heima og hafði sinn son á brjósti þar til að hún afvandi hann. Eftir það þá hún hafði hann af brjósti vanið færði hún hann upp til Síló með þremur uxum, einum efa mjöls og einum legli víns og bar hann inn í Guðs hús í Síló. Og sveinninn var þá enn ungur og þeir sæfðu einn uxann og færðu barnið til Elí. Og hún sagði: „Minn herra, svo sannarlega sem þín sál lifir, minn herra, þá er eg sú sama kvinna sem að stóð hér fyrir þér ákallandi Drottin þann tíma sem eg bað um þetta barn. Nú hefur Drottinn veitt mér mína bæn þá sem eg bað hann. Því gef eg hann nú Drottni alla hans lífdaga með því hann er með bæn fenginn af Drottni.“ Og þau dýrkuðu Drottin í þeim sama stað.