1Og íbúarnir í Kirjat Jearím komu og sóttu örk Drottins og fluttu hana í hús Abínadabs á hæðinni, og vígðu þeir Eleasar son hans til þess að gæta arkar Drottins.2Frá þeim degi, er örkin kom til Kirjat Jearím, leið langur tími, og urðu það tuttugu ár. Þá sneri allt Ísraels hús sér til Drottins.3Samúel sagði við allt Ísraels hús: Ef þér viljið snúa yður til Drottins af öllu hjarta, þá fjarlægið hin útlendu goð frá yður og Astörturnar og snúið hjarta yðar til Drottins og þjónið honum einum. Mun hann þá frelsa yður af hendi Filista.4Þá köstuðu Ísraelsmenn burt Baölum og Astörtum og þjónuðu Drottni einum.5Samúel sagði: Stefnið saman öllum Ísrael í Mispa, og skal ég þá biðja fyrir yður til Drottins.6Söfnuðust þeir þá saman í Mispa og jusu vatn og úthelltu því fyrir Drottni. Og þeir föstuðu þann dag og sögðu þar: Vér höfum syndgað móti Drottni! Og Samúel dæmdi Ísraelsmenn í Mispa.7En er Filistar heyrðu, að Ísraelsmenn höfðu safnast saman í Mispa, þá fóru höfðingjar Filista á móti Ísrael. Og er Ísraelsmenn heyrðu það, urðu þeir hræddir við Filista.8Og Ísraelsmenn sögðu við Samúel: Lát eigi af að hrópa til Drottins, Guðs vors, fyrir oss, að hann frelsi oss af hendi Filista.9Þá tók Samúel dilklamb og fórnaði í brennifórn alfórn Drottni til handa. Og Samúel hrópaði til Drottins fyrir Ísrael, og Drottinn bænheyrði hann.10En meðan Samúel var að fórna brennifórninni, voru Filistar komnir í nánd til að berjast við Ísrael. En Drottinn sendi þrumuveður með miklum gný yfir Filista á þeim degi og gjörði þá felmtsfulla, svo að þeir biðu ósigur fyrir Ísrael.11Og Ísraelsmenn fóru út frá Mispa og eltu Filista og drápu þá á flóttanum, allt þar til komið var niður fyrir Betkar.12Þá tók Samúel stein og reisti hann upp milli Mispa og Jesjana og kallaði hann Ebeneser og sagði: Hingað til hefir Drottinn hjálpað oss.13Þannig voru Filistar yfirbugaðir, og komu þeir ekki framar inn í land Ísraels. Og hönd Drottins var gegn Filistum meðan Samúel lifði.14En borgir þær, sem Filistar höfðu tekið frá Ísrael, komu aftur undir Ísrael, frá Ekron allt til Gat, og landinu, er að þeim lá, náði Ísrael einnig úr höndum Filista. Og friður komst á milli Ísraels og Amoríta.15Samúel dæmdi Ísrael meðan hann lifði.16Og hann ferðaðist um á ári hverju og kom til Betel, Gilgal og Mispa og dæmdi Ísrael á öllum þessum stöðum.17Og hann sneri aftur til Rama, því að þar átti hann heima, og þar dæmdi hann Ísrael. Og hann reisti Drottni þar altari.

7.1 Sóttu örk Drottins 2Sam 6.1-4; 1Kon 8.1-2; 1Kro 13.5-7
7.2 Tók að hrópa til Drottins 2Mós 2.23-25; Dóm 6.6; 10.10
7.3 Fjarlægið framandi guði 1Mós 35.2; Jós 24.14; Dóm 6.10; 10.13
7.10 Sendi þrumuveður 1Sam 2.10+
7.12 Ebeneser 1Sam 4.1
7.13 Óvinirnir yfirbugaðir Dóm 3.30; 4.23; 8.28; 11.33