1Svo segir Drottinn við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð:2Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar.3Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, Drottinn, sem kalla þig með nafni þínu, ég Ísraels Guð.4Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki.5Ég er Drottinn og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég. Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki,6svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég. Ég er Drottinn og enginn annar.7Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill og veld óhamingju. Ég er Drottinn, sem gjöri allt þetta.8Drjúpið, þér himnar, að ofan, og láti skýin réttlæti niður streyma. Jörðin opnist og láti hjálpræði fram spretta og réttlæti blómgast jafnframt. Ég, Drottinn, kem því til vegar.9Vei þeim, sem þráttar við skapara sinn, sjálfur leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar! Hvort má leirinn segja við leirmyndarann: Hvað getur þú? eða handaverk hans: Hann hefir engar hendur.10Vei þeim, sem segir við föður sinn: Hvað munt þú fá getið! eða við konuna: Hvað ætli þú getir fætt!11Svo segir Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael og sá er hann hefir myndað: Spyrjið mig um hið ókomna og felið mér að annast sonu mína og verk handa minna!12Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her.13Ég hefi vakið hann upp í réttlæti og ég mun greiða alla hans vegu. Hann skal byggja upp borg mína og gefa útlögum mínum heimfararleyfi, og það án endurgjalds og án fégjafa, segir Drottinn allsherjar.14Svo segir Drottinn: Auður Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð.15Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari.16Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir.17En Ísrael frelsast fyrir Drottin eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu.18Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar.19Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: Leitið mín út í bláinn! Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.20Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað.21Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan! Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, Drottinn, ekki gjört það? Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til.22Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar.23Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað.24Hjá Drottni einum, mun um mig sagt verða, er réttlæti og vald. Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín.25Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.

45.1 Hinn smurði Slm 2.2+ 1) konungurinn 2Sam 5.3; 2) presturinn 2Mós 29.7; 3) spámaðurinn Jes 61.1; 1Kon 19.16 – Kýrus Jes 40.13+
45.2 Ganga á undan Jes 52.12; sbr Jes 49.10; 2Mós 13.21 – jafna fjöllin Jes 40.3-4
45.4 Þjóns míns, míns útvalda Jes 41.8+ ; sbr Jes 42.1 – með nafni Jes 41.25
45.6 Skilji sbr Jes 49.23+ – nema ég Jes 44.6
45.7 Heill … böl Sír 11.14; sbr Jes 41.23
45.8 Réttlæti Jes 46.13; 51.5,6,8; 56.1; 59.17; 62.1 – réttlæti blómgast Jes 61.11; Slm 85.12
45.9 Leirinn við þann sem mótar hann Jes 29.16; Jer 18.6; Róm 9.20-21; sbr Jes 64.7
45.11 Skapari Jes 43.1+ – Hinn heilagi í Ísrael Jes 1.4+
45.12 Drottinn skapar Jes 42.5+
45.13 Gera brautir beinar sbr Jes 40.3-4; 45.2 – án lausnargjalds Jes 52.3; 55.1 – Drottinn allsherjar Jes 44.6+
45.14 Egyptaland, Kúss, Seba Jes 43.3 – hjá einum 2Kon 5.15 – enginn annar Guð Jes 44.6+
45.15 Frelsari Jes 43.3+
45.18 Skapari himins og jarðar Jes 44.24+ – enginn annar Jes 44.6+
45.19 Í leynum Jes 48.16; Jóh 18.20; Post 26.26; sbr Jes 45.15 – skýri frá Jes 41.22+
45.20 Skurðgoð Jes 44.17 – getur ekki hjálpað Jes 46.7; 47.15
45.21 Gjörið kunnugt Jes 41.22+ – frá öndverðu sbr Jes 46.10 – fyrir löngu Jes 44.8+ – enginn Guð nema ég Jes 45.6; 43.11; 44.6 – frelsari Jes 43.3+
45.22 Endimörk jarðar Jes 49.6; 52.10; Slm 98.3
45.23 Svarið Jes 49.18; 1Mós 22.16; 5Mós 32.40 – ekki snýr aftur Jes 55.11; 62.8 – kné, tunga Róm 14.11; Fil 2.10-11 – sverja Jes 19.18; 2Kro 15.14