1Þegar þú sér naut eða sauð bróður þíns á slæðingi, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim, heldur skalt þú reka þau aftur til bróður þíns.2En ef bróðir þinn býr eigi í grennd við þig eða ef þú þekkir hann ekki, þá skalt þú taka það heim til þín og hafa hjá þér, uns bróðir þinn leitar þess. Þá skalt þú fá honum það aftur.3Eins skalt þú og fara með asna hans, og eins skalt þú fara með klæðnað hans, og eins skalt þú fara með hvern þann týndan hlut, er bróðir þinn hefir misst og þú fundið. Þú mátt eigi leiða það hjá þér.4Ef þú sér asna eða uxa bróður þíns liggja afvelta á veginum, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim. Þú skalt vissulega hjálpa honum til að reisa þá á fætur.5Eigi skal kona ganga í karlmannsbúningi og eigi skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.6Ef fuglshreiður verður fyrir þér á leið þinni, uppi í tré eða á jörðinni, með ungum í eða eggjum, og móðirin liggur á ungunum eða eggjunum, þá skalt þú ekki taka móðurina ásamt ungunum.7Þú skalt sleppa móðurinni, en taka ungana eina, til þess að þér vegni vel og þú lifir langa ævi.8Þegar þú reisir nýtt hús, skalt þú gjöra brjóstrið allt í kring uppi á þakinu, svo að ekki bakir þú húsi þínu blóðsekt, ef einhver kynni að detta ofan af því.9Þú skalt eigi sá víngarð þinn tvenns konar sæði, svo að allt falli ekki undir helgidóminn, sæðið, sem þú sáir, og eftirtekjan af víngarðinum.10Þú skalt ekki plægja með uxa og asna saman.11Þú skalt ekki fara í föt, sem ofin eru af tvenns konar efni, af ull og hör saman.12Þú skalt gjöra þér skúfa á fjögur skaut skikkju þinnar, þeirrar er þú sveipar um þig.13Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni,14og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,15þá skulu foreldrar stúlkunnar taka meydómsmerki hennar og fara með þau til öldunga borgarinnar í borgarhliðið,16og faðir stúlkunnar skal segja við öldungana: Dóttur mína gaf ég þessum manni að eiginkonu, en hann hefir óbeit á henni.17Nú ber hann svívirðilegar sakir á hana og segir: Ég fann eigi meydómsmerki hjá dóttur þinni. En hér eru sannanir fyrir meydómi dóttur minnar! Og þau skulu breiða út rekkjuklæðið í augsýn öldunga borgarinnar.18Og öldungar borgarinnar skulu taka manninn og refsa honum,19og þeir skulu gjöra bætur á hendur honum, hundrað sikla silfurs, og greiða þá föður stúlkunnar, fyrir það að hann ófrægði mey í Ísrael. Og hún skal vera kona hans, honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.20En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið,21þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.22Ef maður er staðinn að því að liggja hjá konu annars manns, þá skulu þau bæði deyja, maðurinn, sem lá hjá konunni, og konan sjálf. Þannig skalt þú útrýma hinu illa úr Ísrael.23Nú er mey manni föstnuð, og karlmaður hittir hana innan borgar og leggst með henni,24þá skuluð þér leiða þau bæði að borgarhliðinu og lemja þau grjóti til bana, stúlkuna vegna þess að hún kallaði ekki, þó að hún væri inni í borginni, og manninn vegna þess að hann spjallaði konu náunga síns. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.25En ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, og hann tekur hana með valdi og leggst með henni, þá skal maðurinn einn deyja, sá er með henni lagðist.26En stúlkunni skalt þú ekkert gjöra. Hún hefir ekki framið neitt það, sem dauða sé vert, því að hér stóð eins á og þegar maður ræðst á náunga sinn og drepur hann.27Því að þar sem hann hitti hana úti á víðavangi, kann fastnaða stúlkan að hafa kallað, en enginn verið við til að hjálpa henni.28Ef maður hittir mey, sem eigi er föstnuð, og hann tekur hana og leggst með henni og komið er að þeim,29þá skal maðurinn, er lagðist með henni, greiða föður stúlkunnar fimmtíu sikla silfurs, en hún skal verða kona hans, fyrir því að hann hefir spjallað hana. Honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.30Eigi skal maður ganga að eiga konu föður síns né fletta upp ábreiðu föður síns. fletta upp ábreiðu föður síns.

22.1-4 Dýr á slæðingi 2Mós 23.4
22.4 Afvelta dýr 2Mós 23.5
22.5 Viðurstyggilegt fyrir Drottni 5Mós 7.25+
22.6 Ekki taka móðurina sbr 3Mós 22.28
22.7 Að þér vegni vel 5Mós 4.40+ – langlífi 5Mós 4.24+
22.9-11 Ekki blanda saman 3Mós 19.19
22.12 Skúfar 4Mós 15.37-39; Matt 9.20+
22.19 Bætur 2Mós 21.22 – skilja við 5Mós 22.29
22.21 Grýta 5Mós 13.11+ – svívirðing í Ísrael 1Mós 34.7; Jós 7.15; Dóm 20.10; 2Sam 13.12; Jer 29.23; – útrýma hinu illa 5Mós 13.6+
22.22 Liggja hjá 3Mós 20.10+
22.28 Nauðgun 1Mós 34; 2Mós 22.15; 2Sam 13
22.29 Skilja við 5Mós 22.19
22.30 Engin kvænast stjúpu sinni 3Mós 18.8+