XVIII.

Það skeði þá Davíð bjó í sínu húsi að hann sagði til Natan spámanns: [ „Sjá, eg bý í einu sedrusviðarhúsi en Drottins sáttmálsörk er undir tjaldþaki.“ Natan svaraði Davíð: „Allt hvað þér býr í hjarta, það gjör þú því að Guð er með þér.“

En á þeirri nótt kom orð Drottins til Natan og sagði: „Far og seg til míns þénara Davíðs: Svo segir Drottinn: Ekki skaltu mér hús til íbúðar byggja. Því eg hefi ekki búið í nokkru húsi frá þeim degi að eg útleidda Ísraelssyni allt til þessa dags heldur var eg þar sem tjaldbúðin var og landtjaldið hvar sem eg hefi gengið á meðal alls Ísraels. Hefi eg og nokkurn tíma talað til nokkurs dómara í Ísrael hverjum eg bauð að fæða mitt fólk og sagt: Því byggi þér mér ekki eitt hús af sedrusviði? Þar fyrir seg nú til míns þénara Davíðs: Svo segir Drottinn Sebaót: Eg tók þig úr haganum þar þú eftirfylgdir hjörðinni að þú skyldir vera einn höfðingi yfir mitt fólk Ísrael. Og eg hefi verið með þér hvert sem þú hefur farið og þína óvini hefi eg upprætt fyrir þér og eg hefi gjört þér eitt nafn svo sem að þeir inu stóru á jörðunni hafa. Og eg vil gefa stað mínu fólki Ísrael og eg vil planta það að það búi þar svo það hrærist ekki framar meir. Og það vonda fólk skal ekki meir þrykkja það undir so sem áður frá þeim tíma sem eg bauð að þar skyldu vera dómendur yfir mitt fólk Ísrael. Og eg vil niðurþrykkja alla þína óvini og segja þér að Drottinn vill upp byggja þér eitt hús.

En þegar þínir dagar eru úti að þú fer héðan til þinna feðra þá vil eg upp vekja þitt sæði eftir þig sem að vera skal einn af þínum sonum. [ Hans ríki vil eg staðfesta. Hann skal byggja mér eitt hús og eg vil staðfesta hans stól eilíflega. Eg vil vera hans faðir og hann skal vera minn son. Og minni miskunnsemi vil eg ei svipta frá honum so sem eg tók hana frá þeim sem eð var fyrir þig heldur vil eg setja hann í mitt hús og í mitt ríki eilíflega og hans stóll skal eilíflega stöðugur standa.“

Og þá Natan hafði talað eftir öllum þessum orðum og þessari sýn við Davíð þá kom Davíð kóngur og var fyrir Drottni og sagði: [ „Hver em eg, Drottinn Guð, og hvað er mitt hús það þú hefur veitt mér slíkt? Og það hefur þér þótt vera of lítið, Guð, heldur hefur þú talað um þíns þénara hús í framtíðinni. Og þú hefur álitið mig svo sem í eins manns mynd hver að er í hæðinni Guð Drottinn. Hvað skal Davíð nú meir segja til þín að þú vegsamir þinn þénara? Þú þekkir þinn þjón. Drottinn, vegna þíns þjóns, eftir þínu hjarta hefur þú gjört alla þessa mikla hluti að opinber yrði öll þessi stórmerki. Drottinn, enginn er þinn líki og enginn er Guð utan þú um hvern vér höfum heyrt með vorum eyrum. Og hvar er nokkuð fólk á jörðunni slíkt sem þitt fólk Ísrael að Guð sjálfur er farinn til að endurleysa sér eitt fólk og að gjöra sér sjálfum eitt nafn af miklum og hræðilegum gjörningum, að burtdrífa heiðingjana frá þínu fólki hvert þú frelsaðir af Egyptalandi? Og gjörðir þér þitt fólk Ísrael til eins fólks að eilífu og þú, Drottinn, ert orðinn þeirra Guð.

Nú Drottinn, það orð sem þú talaðir um þinn þénara og um hans hús, sé það ævinlega satt og gjör sem þú hefur sagt og að þitt nafn sé satt og ævinlega stórt so menn megi segja: Drottinn Sebaót er Ísraels Guð, hann er Guð í Ísrael, og hús þíns þénara Davíðs verði staðfest fyrir þér. Því þú, Drottinn, hefur upplokið eyrum þíns þénara að þú viljir byggja honum eitt hús. Þar fyrir hefur þinn þénari fundið það traust að hann biður þig. Tak nú til að blessa hús þíns þénara svo að það sé ævinlega fyrir þér. Því að hvað þú blessar, Drottinn, það er blessað eilíflega.“